Safnaði rúmlega 1,1 milljón

Ingileif Friðriksdóttir safnaði ríflega 1,1 milljón.
Ingileif Friðriksdóttir safnaði ríflega 1,1 milljón. Ljósmynd/Instagram

Eins og við má búast segist Ingileif Friðriksdóttir fjölmiðlakona vera í skýjunum með peningasöfnun sem hún stóð fyrir, þegar mbl.is slær á þráðinn, en hún náði að safna ríflega 1,1 milljón, sem rann í hlutum til Landspítalans, Lífs styrktarfélags og Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. 

Eins og mbl.is greindi frá hratt Ingileif söfnuninni af stað í hálfgerðum hálfkæringi og segir frá því að þegar söfnunin hafi farið af stað hafi gengið til liðs við hana Júlíanna Ósk Hafberg listakona, sem hafi boðið listaverk öllum þeim sem styrktu um 10.000 eða meira, og síðar hafi prentsmiðjan Pixel boðist til að prenta verkin endurgjaldslaust.

Aðspurð segist Ingileif ekki hafa ýtt verkefninu úr vör með neitt sérstakt söfnunarmarkmið. „Á fyrstu klukkutímanum hugsaði ég: „Það væri æðislegt að ná hundrað þúsund krónum. Svo á degi tvö hugsaði ég: „Vá! Kannski næ ég upp í hálfa milljón.“ Svo liðu dagarnir og það kom alltaf meira og meira inn.“

Framlínufólkið hetjurnar

Sem fyrr segir rann peningurinn til þriggja málefna. Stærstur hluti fór til Landspítalans til spjaldtölvukaupa, með það í huga að samskipti lækna og sjúklinga í gegnum stafrænar leiðir aukast nú mikið.

Ingileif segist að síðustu vilja koma þökkum til heilbrigðisstarfsfólks. Hún segist vitaskuld vera ánægð með að söfnunin hafi tekist svona vel hjá sér, en að hetjurnar séu framlínufólkið í baráttunni við kórónuveiruna. 

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert