Samkomubanninu aflétt í áföngum

Víðir var jákvæður á fundinum að vanda og hvatti fólk …
Víðir var jákvæður á fundinum að vanda og hvatti fólk til að vera gott við hvert annað. mbl.is/Kristinn Magnússon

Yfirvöld vinna nú að áætlun um það hvernig samkomubanninu verður aflétt en líklegt er að slakað verði á því í öfugri röð miðað við það hvernig bannið var sett á, að sögn Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns. Áætlunin verður líklega kynnt á miðvikudaginn. 

„Við erum að vinna þessa áætlun og við munum hitta aðila sem við þurfum að fá upplýsingar um hvernig er best að vinna þetta í þessari viku. Ef allt gengur upp þá getum við hugsanlega kynnt það á miðvikudaginn en það er ekki alveg víst,“ sagði Víðir á blaðamannafundi almannavarna vegna kórónuveiru í dag.

Óvíst hvenær viðkvæmir hópar geti snúið aftur

Víðir benti á að mikilvægt væri að sjá hvernig faraldurinn þróast í nágrannalöndum Íslands og litið væri til þess hvernig veiran hagi sér í þeim löndum þar sem slakað hefur verið á aðgerðum. 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur framlengt samkomubannið til 4. maí næstkomandi en Víðir segir að banninu verði líklega ekki öllu aflétt þann dag. Því muni vera aflétt í áföngum á nokkrum vikum. 

„Það verður slakað á í öfugri röð miðað við það sem við höfum sett á og það mun eðlilega taka einhvern tíma vegna þess að meðgöngutími veirunnar er sjö til fjórtán dagar og til þess að sjá áhrifin af hverjum breytingum gætum við þurft að bíða svo lengi.“

Aðspurð sagði Alma D. Möller landlæknir of snemmt að segja til um það hvenær fólk í viðkvæmum hópum gæti farið að stíga af meiri krafti inn í samfélagið á nýjan leik. Slíkt sé í stöðugri endurskoðun. 

mbl.is