Konráð fékk heimsókn frá karlakór í einangrun

Eins og sjá má á þessari mynd passaði kórinn vel …
Eins og sjá má á þessari mynd passaði kórinn vel upp á að hafa gott bil á milli manna. Ljósmynd/Aðsend

Það var heldur betur góð heimsókn sem Konráð Jónsson lögmaður fékk frá félögum sínum í karlakórnum Esju fyrr í dag, en hann dvelur nú á farsóttahótelinu við Rauðarárstíg. Konráð greindist með COVID-19-sjúkdóminn, sem kórónuveiran veldur, fyrir rúmri viku og hefur verið í einangrun á Rauðarárstígnum síðan. Kórinn fór að sjálfsögðu ekki inn heldur tók lagið fyrir utan gluggann og eflaust hafa því fleiri en Konráð fengið að njóta.

„Ég hef ekki fengið að stíga fæti úr herberginu hér á farsóttahótelinu í níu daga, er ekki með svalir og hef ekki fengið að fara undir beran himin á þessum tíma. Ég var því djúpt snortinn að fá þessa óvæntu heimsókn frá félögum mínum í kórnum. Svona gleðisprengja flýtir bata. Ég á aldeilis góða að,“ segir Konráð í samtali við mbl.is, en upptöku af söngnum má heyra hér fyrir neðan.

Konráð segist hafa verið djúpt snortinn af þessari heimsókn.
Konráð segist hafa verið djúpt snortinn af þessari heimsókn. Ljósmynd/Aðsend

Konráð ákvað að fara á farsóttahótelið í einangrun þar sem það var illframkvæmanlegt að hann væri í einangrun heima hjá sér, ásamt allri fjölskyldunni. En Konráð og kona hans eiga fjögur ung börn, þar á meðal þriggja mánaða tvíburadætur og greindist önnur þeirra einnig með veiruna. Hún hefur sem betur fer sloppið vel að sögn Konráðs og sýnir engin einkenni.

Sjálfur er Konráð allur að braggast en hann hafði verið með flensueinkenni í töluverðan tíma áður en hann komst í sýnatöku og fékk greiningu. Hann vonast til að losna úr einangrun í næstu viku en þarf að vera í sjö daga einkennalaus áður en það gerist.

Þótt honum þyki erfitt að hitta ekki fjölskylduna sína væsir ekki um hann á Rauðarárstígnum. „Aðbúnaður hér á hótelinu er með ágætum og starfsfólk Rauða krossins, sem sér um mig, er frábært — það veitir góðan andlegan stuðning.“

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman