Votta aðstandendum samúð

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Eliza Reid forsetafrú.
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Eliza Reid forsetafrú. Ljósmynd/Forseti Íslands

Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid hafa vottað ástvinum þeirra sem hafa látist af völdum kórónuveirunnar samúð. Þetta kemur fram í færslu forseta Íslands á Facebook í kvöld.

„Í þeirri viku, sem nú er senn liðin, létust tveir til viðbótar hér á landi af völdum veirunnar skæðu. Fyrir hönd okkar Elizu votta ég ástvinum þeirra innilega samúð. Og enn skulu ítrekaðar þakkir til allra þeirra sem standa núna í ströngu við að vernda líf og heilsu fólks. Að viku liðinni, á páskadag, mun ég ávarpa ykkur með formlegri hætti, ágætu landar mínir. En hér kemur að venju vikupistill.

Sem fyrr veldur samkomubannið því að slegið er á frest fundum og ferðum, viðburðum og mannfögnuðum. Nánast af handahófi nefni ég hér karlahlaup Krabbameinsfélagsins og frumsýningu heimildarmyndar um Brynjar Karl Titanic-smið á degi einhverfunnar í fyrradag. Nú þegar svo margt er farið úr föstum skorðum skulum við muna að einhverfum hugnast öll röskun einatt illa. Vonandi tekst fólki að mæta þeim vanda eftir bestu getu. Þá þurfti að fella niður Nótuna – uppskeruhátíð tónlistarskólanna sem ég hafði hlakkað til að sækja. Sama máli gegnir um alþjóðahátíð þeirra sem leika sér í EVE Online-leik CCP og hér á Bessastöðum stóð til að hafa móttöku vegna Hönnunarmars.

Hefði allt verið með felldu hefði ég jafnframt sótt ungmennaráðstefnu UMFÍ á Laugarvatni og alþjóðaþing í Japan um jafnrétti kynjanna. Allt þetta verður að bíða betri tíma. Úti í heimi herjar veiran enn. Í dag er í Kína opinber sorgardagur. Af því tilefni sendi ég kínversku þjóðinni samúðar- og stuðningskveðjur.

Þá hef ég sent hlýjar óskir til grannþjóða okkar, Færeyja og Grænlendinga og sömuleiðis til Vestur-Íslendinga. Sú kveðja birtist í blaði þeirra, Lögbergi-Heimskringlu,“ segir í færslu forseta Íslands á Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert