Appelsínugul hríðarviðvörun um allt land

Svona lítur kortið út núna.
Svona lítur kortið út núna. Ljósmynd/Veðurstofa Íslands

Appelsíngular hríðarviðvaranir eru í gildi nánast um allt land og verða fram eftir degi. En á Vestfjörðum og Norðurlandi verða appelsínugular viðvaranir í gildi til morguns. Búist er við norðaustan stormi eða roki í allan dag og allvíða verður töluverð snjókoma. Á höfuðborgarsvæðinu er gul viðvörun.

Ekkert ferðaveður er því á landinu og fjölmargir vegir ýmist ófærir eða lokaðir og munu vera það fram eftir degi og til kvölds, miðað við veðurspá, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.

Lokað er um Hellisheiði, Þrengsli, Suðurstrandarveg og Mosfellsheiði. Þar er stórhríð. Þessir vegir verða væntanlega ekki opnaðir fyrir en líður á daginn, miðað við spá. Einnig er lokað um Kjalarnes.

Veðrið skánar um landið sunnan- og austanvert síðdegis og í kvöld, en þá snýst í hægari suðaustanátt með rigningu og hlýnandi veðri. Í nótt og í fyrramálið batnar svo veðrið norðvestanlands, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Það hvessir hins vegar aftur á morgun, en þá gengur í suðvestan 15-23 m/s með skúrum og síðar éljum.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á mánudag:

Gengur í suðvestan 15-23 m/s með skúrum og síðar éljum, úrkomumest á sunnanverðu landinu. Kólnandi veður, hiti 0 til 5 stig seinnipartinn.


Á þriðjudag:
Suðvestan 8-15 og él sunnan- og vestanlands, en gengur í norðanstrekking undir kvöld með éljum norðantil á landinu. Hiti um og undir frostmarki

Á miðvikudag:
Breytileg átt 3-10. Víða þurrt og bjart veður, en dálítil él norðaustantil á landinu. Frost 0 til 6 stig, en frostlaust við suðurströndina.

Á fimmtudag (skírdagur):
Gengur í austlæga átt með bjartviðri og vægu frosti um landið norðanvert, en lítilsháttar vætu sunnanlands og hita 1 til 6 stig.

Á föstudag (föstudagurinn langi):
Suðlæg eða breytileg átt og rigning með köflum, en snjókoma eða slydda norðantil á landinu. Hlýnandi veður.

Á laugardag:
Suðlæg átt og dálitlar skúrir sunnan- og vestantil, en styttir upp norðaustanlands. Hiti 0 til 6 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert