Róast eftir kvöldmat

Reykvíkingar losna úr heljargreipum stórhríðar eftir kvöldmat, en fagna því …
Reykvíkingar losna úr heljargreipum stórhríðar eftir kvöldmat, en fagna því vart annars staðar en heima. mbl.is/RAX

Versta óveðrið er gengið niður á Austurlandi, það er að ganga niður á Suðausturlandi og það gengur niður um kvöldmatarleytið eða ögn síðar á höfuðborgarsvæðinu. Það gengur niður í nótt og í fyrramálið norðvestan til á landinu.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni ætti að snúast í austanátt og fara að rigna á milli sjö og níu í kvöld á höfuðborgarsvæðinu. Á morgun kólnar aftur síðdegis og gengur í allhvassa suðvestanátt með kvöldinu. Veðrðið verður þó fjarri því eins mikið og var í dag.

Höfuðskepnurnar hafa látið til sín taka um land allt frá því í gærkvöldi og viðbragð björgunarsveita hefur verið nokkuð frá því í gærkvöldi. Ferðaveður hefur verið vonlaust víðast hvar, sem fyrir sitt leyti passar við samkomubann og tilmæli almannavarnadeildar lögreglunnar um að halda sig heima vegna kórónuveirufaraldursins.

Björgunarsveitarmenn hafa staðið í ströngu frá því í gærkvöldi við að koma fólki til bjargar á vegum úti, og voru þess dæmi í morgun að fólk sæti enn inni í bílum sínum eftir að hafa beðið þar í alla nótt. Sýnishorn af ástandinu á Suðurlandi fæst með þessu myndskeiði af Twitter: 

mbl.is