Þau standa vaktina

Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður Farsóttarhúss, tekur á móti sýktum einstaklingum …
Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður Farsóttarhúss, tekur á móti sýktum einstaklingum sem ekki geta verið í einangrun annars staðar. mbl.is/Ásdís

Á meðan hálf þjóðin hefur fært vinnustöðvar sínar heim í öryggi er margt fólk sem ekki hefur þann kost. Þetta er fólkið sem stendur vaktina og heldur hjólum atvinnulífsins gangandi; fólkið sem er mikilvægt til þess að líf okkar hinna raskist sem minnst nú á tímum kórónuveirunnar.

Á þessum síðustu og verstu tímum skiptir máli að grunnstoðir þjóðfélagsins séu traustar. Það þarf að halda úti öflugri heilbrigðisþjónustu og skólar og leikskólar þurfa að sinna börnunum okkar. Einnig þarf að huga að samgöngum, löggæslu og þjónustu.
Fólk sem vinnur að þessum störfum stendur vaktina á tímum kórónuveirunnar og vinnur störf sín af alúð og elju sem aldrei fyrr. Þetta er fólkið sem fær sjaldnast hrós en í dag er þetta fólkið sem er í framlínunni. Án þess værum við illa stödd.
Morgunblaðið hitti fólk úr ýmsum stéttum og fékk að heyra hvernig störf þeirra og líf hafa breyst á síðustu vikum. 

Gætir að smitvörnum

Jónína Lýðsdóttir , hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku í Fossvogi, segist hitta …
Jónína Lýðsdóttir , hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku í Fossvogi, segist hitta fáa utan vinnu svo hún beri ekki smit inn á spítalann. mbl.is/Ásdís

Jónína Lýðsdóttir, hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku í Fossvogi, segir lífið hafa breyst töluvert, bæði innan og utan vinnu. „Ég reyni að forðast smit eins og ég get til að bera ekki veiruna inn á spítalann. Eins þurfa allir að gæta mun betur að smitvörnum hér á vinnustaðnum. Félagslífið hefur eðlilega minnkað, en ég er heppin að geta stundað mitt aðaláhugamál sem er hestamennska. Annars hitti ég fáa aðra en nánustu fjölskyldu.“

Ást frá börnunum

Tinna Snorradóttir, leiðbeinandi á leikskólanum Austurkór, segir starfið hafa breyst töluvert undanfarið. „Það er búið að skipta hópnum upp í tvo hluta og krakkarnir skiptast á að vera heima. Það er ákveðin pressa að vinna undir þessum kringumstæðum en maður fær svo mikla ást frá börnunum að lundin léttist við það. Við brýnum fyrir börnunum að þvo sér vel um hendur og sprittum allt dót eftir daginn.“

Tinna segist finna fyrir meiri pressu nú á tímum kórónuveirunnar.
Tinna segist finna fyrir meiri pressu nú á tímum kórónuveirunnar. mbl.is/Ásdís

Bíókvöld og vöfflur

Hjálmar Svanur Hjálmarsson, sjúkraliði á Grund, segir skyldustörfin í vinnunni hafa breyst. „Eftir að ættingjarnir hættu að koma sinnum við fólkinu enn meir en áður því fólkið verður einmana. Við erum að reyna að hafa ofan af fyrir því með ýmsu, eins og með bíókvöldum og að baka vöfflur. Síðan eru sóttvarnir miklar. Ég hitti engan fyrir utan vinnu. Flestir hérna loka sig algjörlega af. Álagið er töluvert meira en allir eru að gera sitt besta.“

Hjálmar Svanur reynir að hafa ofan af fyrir heimilismönnum á …
Hjálmar Svanur reynir að hafa ofan af fyrir heimilismönnum á Grund. mbl.is/Ásdís


Vinnur dag og nótt

Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður Farsóttarhúss, tekur á móti sýktum einstaklingum sem ekki geta verið í einangrun annars staðar. „Ég sinni fólkinu sem hér er ásamt sjálfboðaliðum Rauða krossins, en við erum með vakt allan sólarhringinn. Við færum þeim mat og sinnum félagslegum samskiptum því þau eru hér lokuð inni í litlum herbergjum. Svo fylgjumst við með heilsufarinu. Ég er búinn að vera hér í mánuð og er hér dag og nótt. Ég hef farið heim í þrjár nætur en hitti engan utan vinnunnar. Hér þarf ég að vera í hlífðarfötum þegar ég fer inn til sjúklinganna. Starfið gengur vel þótt það reyni á andlegu hliðina hjá fólki og það er misveikt. Þetta er ekkert auðvelt.“

Gylfi Þór þarf að passa vel að smitast ekki.
Gylfi Þór þarf að passa vel að smitast ekki. mbl.is/Ásdís

Í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins er rætt við fleiri sem standa vaktina á tímum kórónuveirunnar. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert