Þjófurinn faldi sig í vörurými sendibíls

mbl.is/Kristinn Magnússon

Um klukkan hálftvö í nótt var tilkynnt um yfirstandandi innbrot í fyrirtæki úti á Granda og maður grunaður um innbrotið var handtekinn nærri vettvangi þar sem hann hafði falið sig í vörurými sendibifreiðar. Einnig náðist að endurheimta þýfið, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins.

Rétt fyrir klukkan níu í gærkvöldi var tilkynnt umferðaróhapp á Kringlumýrarbraut sem varð með þeim hætti að ökumaður missti stjórn á bifreið sinni og ók á vegrið. Farþegi bifreiðarinnar var með verki í höfði eftir óhappið og var fluttur með sjúkradeild til aðhlynningar á bráðadeild. Draga þurfti bifreiðina af vettvangi.

Þá var á svipuðum tíma tilkynnt líkamsárás í Hafnarfirði en gerandinn var farinn af vettvangi þegar lögreglu bar að garði. Ekki er vitað um meiðsl árásarþola.

Um áttaleytið í gærkvöldi var tilkynnt umferðaróhapp á Suðurlandsvegi í hverfi í 110 en eldur kom upp í bifreiðinni. Ökumaðurinn var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum. Ekki urðu meiðsl á fólki. Ökumaðurinn var að lokinni sýnatöku vistaður í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins. Bifreiðin var dregin af vettvangi.

Fleiri umferðaróhöpp voru tilkynnt á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt og áttu þau það sameiginlegt að ökumenn voru grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Þá var tilkynnt innbrot í bíl í Hafnarfirði þar sem íþróttatösku var stolið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert