„Ég vil að þetta sé rætt“

Frosti Sigurjónsson er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins og var einnig formaður …
Frosti Sigurjónsson er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins og var einnig formaður efnahags- og viðskiptanefndar. mbl.is/Styrmir Kári

„Mín niðurstaða er þessi: við getum alltaf komið hagkerfinu í lag aftur en við getum ekki fengið lífin til baka sem tapast. Og ég vil að þetta sé rætt, ekkert hálfkák og ekki reynt að snúa út úr spurningum,“ segir Frosti Sigurjónsson, rekstrarhagfræðingur og fyrrverandi alþingismaður, í samtali við mbl.is.

Frosti hefur verið mikið í umræðunni vegna kórónuveirufaraldursins og hefur gagnrýnt yfirvöld fyrir ógagnsæi og stefnuleysi svo eitthvað sé nefnt. Í síðustu viku sendi hann ásamt Ólínu Þorvarðardóttur, fyrrverandi þingmanni Samfylkingarinnar, opið bréf til sóttvarnaráðs þar sem farið er fram á að ráðið leggi stefnu sína fram með formlegum hætti.

Eðlilegt að sóttvarnaráð rökstyðji ákvarðanir sínar

„Tilefnið er að sóttvarnaráð tók 14. febrúar mjög stórar og afdrifaríkar ákvarðanir og í ljósi þess hvað þær ákvarðanir hafa mikil áhrif á allt mannlíf og efnahagslíf í landinu finnst okkur eðlilegt að ráðið leggi stefnu sína fram með formlegum hætti líkt og peningastefnunefnd Seðlabankans. Skýri frá helstu forsendum og rökum sem stefnan byggist á og hvort aðrir valkostir hafi verið metnir og hvers vegna þessi leið hafi verið farin,“ útskýrir Frosti og heldur áfram:

„Í lýðræðissamfélagi er nauðsynlegt að ákvarðanir stjórnvalda séu teknar með gagnsæjum hætti og það sé hægt að ræða þær. Ég held að það hafi verið hoppað yfir það skref. Í bréfinu erum við að spyrja spurninga, hver sé raunverulega stefnan þ.e. hvort hún sé að hægja á útbreiðslunni eða stöðva hana. Það eru þær tvær stefnur sem hafa verið notaðar hjá mismunandi ríkjum. Asíuríkin hafa verið að stöðva veiruna og nánast tekist það á meðan Vesturlöndin hafa reynt að hægja á henni og gengið mjög illa með það.“

Útúrsnúningar frekar en svör

Frosti segir mjög mikilvægt að þessum spurningum sé svarað og telur að það hafi ekki verið gert með fullnægjandi hætti þrátt fyrir tilraunir til þess. Í bréfinu er m.a. spurt hvaða stefnu stjórnvöld hér á landi beiti í baráttu við faraldurinn. Hvort verið sé að beita skaðaminnkun og reyna hægja á útbreiðslunni (e. mitigation) þannig að spítalar hafi undan og mannfall verði minna eða hvort verið sé að reyna stöðva faraldurinn með einangrun eða bælingu (e. suppression).

Á upplýsingafundi í síðustu viku fór Þórólfur sóttvarnalæknir yfir þær aðgerðir sem stjórnvöld  beittu og benti við það tækifæri á að það væri í raun verið að beita aðgerðum úr báðum stefnum til að ná sem bestum árangri miðað við aðstæður hér á landi.

Að mati Frosta var þar um að ræða útúrsnúninga frekar en svör. Þá gagnrýnir hann þingmenn harðlega fyrir að þora ekki að láta í sér heyra og segir stjórnarandstöðuna í sjálfskipaðri þöggun lamaða af ótta við að vera sökuð um lýðskrum. Sjálfur segist hann ekki græða neitt á sinni gagnrýni nema leiðindi og hann tekur líka fyrir að ætla sér aftur inn á Alþingi, sér renni einfaldlega blóðið til skyldunnar.

„Ég myndi mjög gjarnan vilja steinhalda kjafti og gera ekki neitt en ég sé bara að það er enginn að segja neitt. Það eru mannslíf í húfi,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert