Fá leyfi til að hittast augliti til auglitis

Aðalsteinn Leifsson, nýskipaður ríkissáttasemjari, á fjarfundi samninganefnda ríkisins og Félags …
Aðalsteinn Leifsson, nýskipaður ríkissáttasemjari, á fjarfundi samninganefnda ríkisins og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga í morgun. Landlæknir hefur veitt leyfi fyrir því að samningsaðila hittist augliti til auglitis á morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta eru raunverulega mjög þungar, flóknar og erfiðar samningaviðræður. En þetta var málefnalegt og hreinskiptið samtal sem við áttum í morgun,“ segir Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is. 

Fjarfundi í kjaradeilu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og samninganefndar ríkisins lauk án niðurstöðu í dag en boðað hefur verið til nýs fundar klukkan 13 á morgun. Landlæknir og sóttvarnalæknir hafa veitt leyfi fyrir því að fulltrúar samninganefndanna mæti til fundar í karphúsið en hingað til hefur verið notast við fjarfundarbúnað. 

Aðalsteinn telur að það henti betur á þessu stigi samningaviðræðna að samningsaðilar hittist augliti til auglitis. „Ég átti samtal við landlækni um að það væri í lagi, við munum fylgja öllum varúðarráðstöfunum og takmörkunum um fjölda á fundum og fjarlægð á milli fólks.

Viðræðum hefur þokað áfram en það er mikilvægt að hittast núna og fara yfir sameiginleg gögn og þróa þetta samtal áfram, samninganefndirnar voru sammála um það,“ segir hann. 

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sagði í samtali við blaðamann að samninganefndin hygðist ekki tjá sig um stöðuna í samningaviðræðunum á þessu stigi og vísaði á ríkissáttasemjara. 

Launamál á oddinum

Óformlegir fundir hafa farið fram undanfarna daga sem hafa gengið ágætlega að sögn Aðalsteins, auk þess sem samkomulag hefur náðst um vinnufyrirkomulag fólks í vaktavinnu og styttingu vinnuvikunnar, eftir margra ára viðræður. 

„Þó að það sé ekkert um samið fyrr en allt er um samið þá liggur fyrir ákveðið samkomulag þar, það er mjög mikilvægt. Síðan hefur náðst gott samkomulag um önnur mikilvæg en smærri málefni eins og orlofsmál, endurmenntun og þess háttar,“ segir Aðalsteinn. 

Það sem er á oddinum núna eru hins vegar launamálin. „Það er allt undir en þetta er þungt umhverfi sem við erum í og þetta eru flókin málefni en um leið er þetta málefnalegt og hreinskiptið samtal milli samningsaðila,“ segir Aðalsteinn, sem er ánægður með samtalið milli samninganefndanna.

mbl.is