Stórt snjóflóð féll í Súgandafjörð

Flóðið féll er stórt.
Flóðið féll er stórt. Ljósmynd/Robert Schmidt

Stórt snjóflóð féll úr Norðureyrargili við Súgandafjörð um klukkan hálfellefu í dag. Engin slys urðu á fólki en lítil flóðbylgja gekk á land á Suðureyri. Ekkert tjón varð af hennar völdum því það var lágstreymt. Miklar drunur glumdu í firðinum þegar flóðið féll enda flóðið umfangsmikið. 

„Flóðið er gríðarlega stórt, nokkur hundruð metrar. Ég var bara heima og heyrði hvílíkar drunur en sá það ekki koma niður. Ég man ekki eftir að hafa séð svona stórt flóð úr Norðureyrargili áður. Það hefur oft hlaupið innan Langodda og Selárdal. Það er mikill snjór á svæðinu og norðanáttin hefur verið stíf og því mátti alveg búast við snjóflóði. Það er ekki oft sem fólk sér snjóflóð falla,“ segir Róbert Schmidt sem býr á Suðureyri. Þegar hann heyrði drunurnar fór hann út og náði eftirfarandi myndum og myndskeiði af flóðinu.   

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands var snjóflóðið að stærðinni fjórir og nokkuð breitt. 

Enginn bílvegur er þar sem snjóflóðið féll fram í sjó. Gamalt eyðibýli, Norðureyri er þarna, en þegar búið var þar var róið yfir fjörðinn. 

Þetta er á svipuðum stað og snjóflóð féll í febrúar og flóðbylgja gekk á land á Suðureyri. Mikið tjón varð en þá var hástreymt. 

Snjóflóð féll fram í sjó.
Snjóflóð féll fram í sjó. Ljósmynd/Robert Schmidt
mbl.is