Telur uppsagnirnar illskiljanlegar

Miklar deilur hafa staðið yfir innan SÁÁ að undanförnu.
Miklar deilur hafa staðið yfir innan SÁÁ að undanförnu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Geðlæknafélag Íslands telur uppsagnir sálfræðinga hjá SÁÁ illskiljanlegar og skorar á stjórnendur samtakanna að draga þær til baka. Það segir að fjárhagsvandi SÁÁ verði ekki leystur með uppsögn örfárra mikilvægra starfsmanna.

Þetta kemur fram í ályktun stjórnar Geðlæknafélags Íslands. Þar lýsir það yfir áhyggjum af uppsögnunum og yfirvofandi starfslokum Valgerðar Rúnarsdóttur yfirlæknis.

„Geðlæknafélag Íslands hefur fylgst með þeim jákvæðu breytingum sem orðið hafa á meðferðarstarfi SÁÁ á síðustu árum. Vægi sálfræðinga og annarra fagstétta hefur þróast í meðferðinni. Samstarf milli SÁÁ og geðþjónustu Landspítala hefur aukist til mikilla muna. Sálfræðiþjónusta við börn hefur vaxið svo og meðferð vegna ópíóíðfíknar. Sálfræðingar SÁÁ hafa verið leiðandi í menntun áfengis- og vímuefnaráðgjafa. Geðlæknafélag Íslands telur því þessar uppsagnir illskiljanlegar þar sem meðferð vegna fíknisjúkdóma byggist á þverfaglegri nálgun,“ segir í ályktuninni.

mbl.is