Gjörónýtur að framan eftir ákeyrslu

Vagninn er mikið skemmdur en um er að ræða einn …
Vagninn er mikið skemmdur en um er að ræða einn af nýju rafmagnsvögnum Strætó. Ljósmynd/Strætó

Vagnstjóri missti stjórn á strætisvagni í Breiðholtinu á tíunda tímanum í kvöld og keyrði yfir umferðareyju. Vagninn hafnaði loks á tré. Einn farþegi var í vagninum og sóttu sjúkraflutningamenn hann. Hann slapp þó með skrámur. 

Vagninn var á leið úr Kórahverfinu yfir í Mjóddina og var því á leið tvö. Atvikið átti sér stað við Jaðarsel í Breiðholti. 

„Vagninn er alveg gjörónýtur að framan. Við höfum engar almennilegar skýringar eins og er á því hvað gerðist. Þeir tala um að það sé mjög hált þarna akkúrat núna, að það hafi skyndileg hálka myndast þarna uppi í Breiðholti,“ segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó.

Vagninn er kominn í höfuðstöðvar Strætó en þrátt fyrir miklar …
Vagninn er kominn í höfuðstöðvar Strætó en þrátt fyrir miklar skemmdir var mögulegt að keyra honum þangað. Ljósmynd/Strætó

„Vagnstýran missir stjórn á bílnum þegar hún er að taka vinstribeygju. Þá tekur hún einhvern hring og fer yfir umferðareyju og endar á tré. Hún er sjálf í áfalli og miður sín yfir þessu. Það var einn farþegi um borð. Hann meiddist ekki mikið en var með smá skrámur og sjúkraflutningamenn skutluðu honum heim. Nýr vagnstjóri var kallaður út sem býr í grennd við Mjóddina. Hann tók túrinn áfram á nýjum bíl.“

mbl.is