Heilbrigðiskerfið að sýna hvað í því býr

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heilbrigðisráðherra fundaði fyrr í dag með forstjórum allra heilbrigðisstofnana landsins þar sem farið var yfir stöðu mála vegna kórónuveirunnar. „Það sem ég tek út úr þessum fundi er fyrst og fremst hvað kerfið okkar er öflugt og sveigjanlegt,“ segir Svandís Svavarsdóttir og bætir við að þyngsti hluti faraldursins sé núna að líkindum að ganga yfir.

Hún segir samstarfið vera gríðarlega gott á milli heilbrigðisstofnana varðandi ýmis mál, þar á meðal mönnun, búnað og kostnað, og hefur embætti landlæknis starfað náið með þeim, auk þess sem forstjórarnir funda þrisvar í viku. Rólegra er yfir heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, að hennar sögn, en í síðustu viku hvað varðar greiningar á veirunni. Að sama skapi erum við að fara inn í þyngra tímabil í innlögnum á sjúkrahús og gjörgæslu.

Hjúkrunarheimilið Berg í Bolungarvík.
Hjúkrunarheimilið Berg í Bolungarvík.

Skiptu sköpum fyrir vestan

Ráðherra bendir á að við komum líklega til með að sjá fleiri staðbundin hópsmit eins og komið hafa upp á Hvammstanga, í Vestmannaeyjum og norðanverðum Vestfjörðum. „Við verðum að vera tilbúin að vera með hertar takmarkanir á samkomum á slíkum svæðum í samstarfi við viðkomandi stjórnvöld,“ greinir Svandís frá og segir mikilvægt að styðja viðkomandi stofnanir með búnaði og starfsfólki eins og nauðsynlegt er. Einnig nefnir hún bakvarðasveitina sem hafi sannað gildi sitt rækilega. „Þessir tíu starfsmenn sem flugu vestur í gær skiptu öllu fyrir Heilbrigðisstofnun Vestfjarða til að hún gæti haldið sinni starfsemi áfram og sinnt sínum verkefnum.“

Er heilbrigðiskerfið nógu öflugt til að takast á við veiruna?

„Já, kerfið okkar er að sýna hvað í því býr. Í því er mikill kraftur, gríðarlegur mannauður og afl og líka mikill sveigjanleiki,“ svarar hún og segir starfsfólk og stjórnendur sýna mikla hugkvæmni við að endurskipuleggja þjónustuna til að koma til móts við breyttar aðstæður.

Víðir Reynisson, Þórólfur Guðnason og Alma D. Möller.
Víðir Reynisson, Þórólfur Guðnason og Alma D. Möller. Ljósmynd/Lögreglan

Þarf að gefa afléttingu langan tíma

Ef allt gengur eftir verður samkomubanni hérlendis aflétt 4. maí. Svandís segir að verið sé að reifa ýmiss konar nálganir í tengslum við það. „Ég held að það sé ljóst að það þarf að gefa afléttingunni langan tíma. Við gerum það í skrefum og svo þurfum við að vega og meta árangurinn eftir hvert skref.“ Hún segir ótímabært að segja til um hvernig það verður gert en fljótlega eftir páska verður greint frá fyrsta skrefinu.

Frá gjörgæsludeild Landspítalans.
Frá gjörgæsludeild Landspítalans. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

„Það verður bara að semja“

Kjaradeila hefur staðið yfir á milli hjúkrunarfræðinga og ríkisins og hafa bæði landlæknir og forstjóri Landspítalans hvatt til þess að deilan verði leyst sem fyrst, sérstaklega í ljósi stöðunnar sem er uppi vegna veirunnar. „Það verður bara að semja. Ég bind miklar vonir við að það gangi saman í þessari umferð, það er löngu tímabært að gera það. Lykilstétt eins og hjúkrunarfræðingar eru þarf að búa við gildan kjarasamning,“ segir ráðherra.

mbl.is

Kórónuveiran

2. júní 2020 kl. 16:26
2
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir