Mótefnaprófanir hefjast þegar faraldurinn rénar

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Mótefnaprófanir munu ekki hefjast hérlendis fyrr en faraldurinn er farinn að réna. Það gæti verið um miðjan apríl, að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Um er að ræða blóðpróf sem sýna hvort einstaklingar hafi búið til mótefni gegn veirunni.

„Við viljum helst sjá faraldurinn fara aðeins niður. Það er ekki mjög marktækt að mæla þetta of snemma. Þegar faraldurinn er farinn að réna er kominn tími í mínum huga til að mæla þetta. Það verður kannski um eða upp úr miðjum apríl.“

Vottorð til skoðunar hérlendis

Í Þýskalandi hafa vottorð verið gefin út fyrir þá sem hafa fengið veiruna og myndað mótefni fyrir henni. Þórólfur segir að það sé einnig til skoðunar að veita slík vottorð hérlendis. 

„Það er nokkuð sem kemur bæði til skoðunar fyrir Íslendinga sem eru að ferðast erlendis og eins gæti það komið til álita varðandi ferðamenn sem eru að koma hingað. Það er eitt af því sem ég held að gæti þurft að skoða.“

Þórólfur sagði á blaðamannafundi almannavarna í dag að mikið væri um að aðilar væru að bjóða upp á svona próf til sölu til heimabrúks eða inni á rannsóknarstofu. Þórólfur varaði fólk við að kaupa slík próf þar sem þau yrðu að vera örugg og áreiðanleg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert