Rio Tinto nýti sér stöðuna

Rio Tinto er að öllum líkindum að nýta sér stöðu sína í kjarasamningum til að ná samningum við Landsvirkjun, að mati formanns verkalýðsfélagsins Hlífar. Líklegt er að ákvæði í kjarasamningum Rio Tinto við starfsfólk muni hafa áhrif á samninga Landsvirkjunar og Rio Tinto um raforkuverð. 

Kjarasamningur Rio Tinto við starfsmenn álversins í Straumsvík er háður því að Landsvirkjun og álverið semji um raforkuverð. Ef slíkt gerist ekki fá starfsmenn álversins í Straumsvík ekki þá 24.000 króna launahækkun sem þeim hefur verið lofað frá og með 1. júlí. 

„Þeir eru sjálfsagt að nýta stöðuna en aftur á móti er ekkert í þessu samkomulagi sem segir til um það hvort það skuli verða hækkun eða lækkun á raforkuverði, einungis að samningurinn verði gerður á milli Rio Tinto og Landsvirkjunar. Þeir eru bara í sínu samningaferli og við skulum bara vona að þeir nái lendingu,“ segir Kolbeinn Gunnarsson, formaður verkalýðsfélagsins Hlífar. 

Kolbeinn Gunnarsson, formaður Verkalýðsfélagsins Hlífar.
Kolbeinn Gunnarsson, formaður Verkalýðsfélagsins Hlífar.

Látin bíða í tvo mánuði

Kolbeinn segir að starfsfólk álversins hafi verið orðið langþreytt á bið eftir nýjum kjarasamningum en samningaviðræður höfðu staðið yfir frá því í júní í fyrra. Samningsdrög voru klár í janúar en samningar voru ekki undirritaðir fyrr en í lok mars þar sem Rio Tinto var ekki tilbúið til að skrifa undir samninga. Loks kom tilboð um samning sem inniheldur launahækkanir sem eru afturvirkar frá 1. júní 2019. En eitt hékk á spýtunni, launahækkanir yrðu mun minni ef Rio Tinto og Landsvirkjun ná ekki samningum fyrir 1. júlí 2020.

Kolbeinn segir að samningurinn hafi falið í sér það miklar kjarabætur, sérstaklega vegna afturvirkni hans, að ákveðið hafi verið að fallast á samninginn með opnunarákvæði Rio Tinto, ákvæðið sem segir til um að 24.000 króna launahækkunin komi ekki til ef samningar á milli fyrirtækisins og Landsvirkjunar nást ekki fyrir 1. júlí. Ef Rio Tinto nýtir sér ákvæðið munu kjaraviðræður væntanlega hefjast að nýju. 

„Við vitum það náttúrlega að það er erfið staða í álheiminum. Það er búinn að vera 13 milljarða halli á síðastliðnu ári svo það er kannski erfitt að reka fyrirtæki í þessu umhverfi svo við þökkum alla vega fyrir það að það skuli vera samningur í gangi.“

Má gera ráð fyrir að ákvæðið hafi áhrif á samninga

Spurður hvort ákvæði sem þetta sé eðlilegt í kjarasamningi segir Kolbeinn:

„Maður hefur ekki séð svona ákvæði hjá stóriðjunni en það þekkist náttúrlega okkar megin, hjá verkalýðshreyfingum. Við höfum verið með rauð strik inni í kjarasamningum sem við teljum að séu opnunarákvæði í kjarasamningum.“

Kolbeinn segir aðspurður að það megi gera ráð fyrir því að ákvæðið hafi áhrif á samninga Landsvirkjunar og Rio Tinto. 

Hér að neðan má sjá helstu atriði samnings Rio Tinto við starfsfólk álversins í Straumsvík. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert