Sækja 17 tonn af lækningavörum til Sjanghæ

Flugvélin leggur af stað til Sjanghæ á morgun.
Flugvélin leggur af stað til Sjanghæ á morgun. Ljósmynd/Aðsend

Flugvél Icelandair flýgur til Sjanghæ í Kína í fyrramálið þar sem hún mun sækja 17 tonn af lækningavörum. Flugvélin stoppar í borginni í fjórar klukkustundir og fer svo beint til baka til Íslands.

Þetta staðfestir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, við mbl.is en vefsíðan Flugblogg.is greindi fyrst frá fyrirhuguðu flugi til Sjanghæ.

Um er að ræða leiguflug á vegum Icelandair Cargo og Loftleiða Icelandic í samstarfi við aðila í heilbrigðisgeiranum á Íslandi og DB Schenker. „Þetta er Boeing 767-farþegavél og undanþága hefur verið fengin frá yfirvöldum til að hlaða frakt í farþegarými,“ segir hún.

Ellefu manna áhöfn verður í fluginu; sex flugmenn, þrír hlaðmenn og tveir flugvirkjar.

mbl.is