Færandi varninginn heim á örlagatímum

Frá vinstri Zagari Salvatore, Snædís Ylfa Ólafsdóttir og Pawel Wojciech …
Frá vinstri Zagari Salvatore, Snædís Ylfa Ólafsdóttir og Pawel Wojciech Cieslikiewicz, starfsmenn Eimskipa. Ljósmynd/Eimskip

Á meðan þjóðskáldið syrgði löngu horfna öld þegar hann orti um skrautbúin skip fyrir landi og hetjur sem flutu með fríðasta lið færandi varninginn heim, syrgja margir nú um mundir tiltölulega nýliðna tíð, nefnilega bara fyrir nokkrum vikum þegar lífið gekk sinn vanagang. Það er þó ljóst að það þýðir ekki að sitja bara og syrgja, það verður að róa að því öllum árum að þessi vanagangur haldi áfram.

Meðal þeirra sem stuðla að því eru starfsmenn Eimskips, helsta flutningafyrirtækis landsins. Þeir vinna margir nótt sem nýtan dag, bæði í landi og á skrautbúnum skipum, bæði við útflutning eða „færandi varninginn heim“. Á vefsíðu Eimskips er gefin innsýn inn í störf þessa fólks, sem tryggir vöruflutninga til og frá landinu á þessum örlagatímum. Eftirfarandi frásagnir eru þaðan teknar.

Fjölskyldan og vinir á Ítalíu

Zagari Salvatore, kallaður Pino, er starfsmaður Vöruhótelsins á Sundabakka. Hann vinnur við afgreiðslu og tínslu á vörum á svokölluðum þrönggangalyftara sem fer um þrönga ganga vöruhússins og sækir vörur í hæstu hæðir.

Pino er frá Ítalíu og hefur verið í samskiptum við vinafólk og fjölskyldu sína þar í landi. „Fjölskylda mín og vinir eru mörg hver búsett á Ítalíu þar sem ástandið hefur verið mjög slæmt en við reynum að halda sambandi eins mikið og við getum í gegnum tölvuna“ segir Pino. „Það eru allir að passa sig mjög vel í öllum samskiptum og maður hittir bara vini sína í gegnum tölvurnar núna.“

Vinnustaður í 40 metra hæð

Snædís Ylfa Ólafsdóttir er kranastjóri á hafnarsvæðinu í Sundahöfn. Hún vinnur við að losa og lesta skip í höfninni í krananum Straumi. Hennar vinnustaður er í ca 40 metra hæð þar sem hún hífir gáma af mikilli nákvæmni.

Eins og fleiri getur Snædís ekki umgengist vinnufélaga sína eins og venjulega. „Það er búið að skipta upp matar- og kaffitímum og tryggja að dag- og kvöldvakt hittast ekki. Svo pössum við vel upp á að þrífa stjórntækin á milli vakta til að minnka líkur á smiti. Þetta er skrýtið og það verður gott að geta hitt alla vinnufélaga sína aftur,“ segir Snædís. 

Tekur breyttu umhverfi með yfirvegun 

Pawel Wojciech Cieslikiewicz er bílstjóri á vöruflutningabíl Eimskips. Hann vinnur við að koma vörum frá sendanda til móttakanda innanlands. Bílstjórar Eimskips aka landið þvert og endilangt í öllum veðrum og vetrarfærð til að koma sendingum á áfangastað.

Pawel segir að í sínu starfi sé breytingin ekki stórvægileg en þó séu ákveðnir hlutir öðruvísi. „Við notum hanska öllum stundum og megum ekki fara inn á mörg svæði sem við máttum fara inn á áður. Í mínu starfi er ég mikið einn á akstri en maður finnur mjög fyrir þessu í samfélaginu sem heild.“ Pawel er þó jákvæður og segir sig og vinnufélaga sína taka þessu breytta umhverfi með yfirvegun.

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert