„Finnst þetta hafa gengið merkilega vel“

Dr. María Dóra Björnsdóttir, deildarstjóri náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands, …
Dr. María Dóra Björnsdóttir, deildarstjóri náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands, segir nemendur og starfsfólk skólans vissulega búa við breytta tíma. Allir leggist þó á eitt við að halda lífinu í skorðum, samstarfsfólkið fundi daglega á Teams og nemendum standi til boða öll sú þjónusta sem möguleg er án þess að fólk hittist augliti til auglitis. Ljósmynd/Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson

„Þegar samkomubannið tók gildi lagði skólinn strax mikla áherslu á að fjarnám tæki við af staðnámi svo nemendur gætu lokið yfirstandandi vormisseri, þetta var grettistak sem kennarar og annað starfsfólk tók þátt í að lyfta,“ segir dr. María Dóra Björnsdóttir, deildarstjóri náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is, en stofnunin siglir nú gegnum sérstaka tíma eins og allur heimurinn.

„Aðaláherslan var á að starfsemin héldi áfram og ég held að það hafi bara tekist ótrúlega vel. Háskólinn var byrjaður að innleiða nýtt námsumsjónarkerfi sem heitir Canvas og nýtt prófakerfi sem heitir Inspera,“ segir María. Bæði kerfin styðji mjög við tæknilega útfærslu á fjarnámi og prófahaldi við stofnun sem rúmlega 12.000 nemendur sækja sér menntun til um þessar mundir.

Vinna viku og viku

„Eins er vert að nefna að námsleiðir í skólanum eru mjög fjölbreyttar“ segir María, og í mörgum þeirra er verklegt nám, vettvangsnám eða starfsnám til viðbótar við hefðbundið fyrirlestrahald og bóklestur. Þetta segir María nokkra áskorun í því ástandi sem nú ríkir þótt reynt sé eftir megni að láta hjólin snúast.

Standa þá byggingar HÍ auðar um þessar mundir eða hvað?

„Þetta er mjög sérstakt, lagt var upp með að allar starfseiningar skiptu sínu starfsfólki í tvo hópa, eina vikuna ynni helmingurinn á staðnum og hinn helmingurinn heima og svo væri skipt. Kæmi upp smit innan einhverrar starfseiningar þá myndu ekki allir í henni smitast á einu bretti. Eins er mikil áhersla lögð á þrif og hreinlætismál í öllum byggingum skólans,“ segir María.

Hittast á Teams

Þróunin hafi þó verið þannig að margt starfsfólk HÍ hafi í æ ríkari mæli fært vinnu sína heim. „Ég vinn núna alfarið heima, við hittumst á [samskiptaforritinu] Teams á hverjum morgni klukkan hálfníu og förum yfir daginn. Spjöllum líka bara um lífið eins og fólk gerir og höldum starfsmannafundi á föstudögum sem hafa venjulega auðvitað verið á vinnustaðnum. Það fyrsta sem við þurftum að gera var að tryggja áframhaldandi þjónustu við nemendur, en bara á öðru formi en vanalega þegar einstaklingar sitja saman í sameiginlegu rými,“ útskýrir María.

Nemendur neyti nú annarra leiða en áður til að sækja aðstoð hjá náms- og starfsráðgjöfum og sálfræðingum skólans. „Þeim bjóðast fundir í mynd eða ekki í mynd, eftir því hvað hver kýs, á Teams auk þess sem við bjóðum upp á símaviðtöl, netspjall og fyrirspurnir á tölvupósti. Nemendur hafa fjölda leiða til að ná sambandi við okkur í náms- og starfsráðgjöfinni. Við opnuðum líka á upptökur á örfyrirlestrum og slökunar- og núvitundaræfingum hjá okkur ásamt því að bjóða upp á stafrænt námstækninámskeið, í raun allt sem hægt er til að auðvelda nemendum að halda eðlilegri námsframvindu,“ segir María frá.

Reyna að létta nemendum lífið

Hún segir að á vegum sálfræðideildar skólans hafi meistaranemar í klínískri sálfræði einnig boðið upp á aukna sálfræðiráðgjöf fyrir aðra nemendur HÍ sem mikið til snúi að því hvernig hægt sé að takast á við þessar breyttu aðstæður sem þjóðir heims standa nú frammi fyrir.

„Margir aðilar innan háskólans hafa þannig lagt sitt af mörkum til að létta nemendum lífið,“ segir María.

Hvað þá með próf nú við lok vorannar 2020?

„Eitt af því sem yfirstjórn skólans lagði mikla áherslu á eftir að samkomubannið tók gildi var að gera nemendum kleift að ljúka þeim námskeiðum sem þeir eru í og halda jafnframt í gæði námsins. Próf hafa færst mikið yfir í heimapróf og rafræn próf,“ svarar María.

Hún segir Inspera-prófakerfið skipta sköpum hvað heimapróf snerti. „Nú hafa fleiri kennarar bæst í hóp þeirra sem nota það auk þess sem þeir nýta verkefni, ritgerðir og annað námsmat eftir því sem hentar hverri námsleið fyrir sig,“ en eins og María lét áður getið krefjast ólíkar námsleiðir ólíkra úrlausna.

Aðstæður fólks mismunandi

María segist ekki þekkja nákvæmlega til aðstæðna alls staðar innan veggja skólans og geti hún því ekki svarað fyrir hvernig fyrirkomulagið verði fyrir nemendur sem stefna á að ljúka námi í vor, yfirstjórn háskólans og fræðasviða eigi eftir að upplýsa um það.

„Við verðum þó einnig að líta til þess að aðstæður fólks eru mismunandi, nemendur eru auðvitað með fjölskyldur og börn á leikskóla- og grunnskólaaldri sem getur haft áhrif á hve mikið þeir geta beitt sér í náminu,“ segir María.

Hvernig er að lokum upplifun hennar sjálfrar af breyttu heimsástandi og heimavinnu?

„Mér finnst þetta hafa gengið merkilega vel og starfsfólkið sem ég er aðallega í samskiptum við, sem er auðvitað náms- og starfsráðgjöfin, hefur bara gert sitt besta til að láta hlutina ganga upp, tileinkað sér nýjar samskiptaleiðir og nýja tækni,“ segir María. „En miðað við þennan stutta aðdraganda er þetta auðvitað heilmikil röskun og við höfum fullan skilning á því að fólk takist nú á við áhyggjur og kvíða, hvort tveggja nemendur og starfsfólk skólans auðvitað ekki síður,“ segir dr. María Dóra Björnsdóttir, deildarstjóri náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert