Gat ekki sagt nei við þessari áskorun

Þorsteinn Víglundsson á Alþingi.
Þorsteinn Víglundsson á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þarna kom tækifæri og áskorun sem ég gat illa sagt nei við,“ segir Þorsteinn Víglundsson sem ætlar að yfirgefa Alþingi og taka við starfi á vettvangi atvinnulífsins. Hann segir að þetta hafi átt sér nokkuð skamman aðdraganda og nefnir að fréttatilkynning komi síðar í dag um hvert hann er að fara. „Ég ákvað eftir vandlega íhugun og samtöl við félaga mína í Viðreisn að taka þetta skref.“

Áður fengið tilboð 

Ákvörðunin var erfið, að sögn Þorsteins, enda ekki auðvelt að stíga út úr starfi sem hann er kosinn til. Hann segist áður hafa fengið tilboð um störf úti í atvinnulífinu sem hann afþakkaði enda hafði hann ekki hugsað sér að vera á förum frá Alþingi. „En þarna kom einfaldlega upp tækifæri, sem skýrist betur þegar það verður tilkynnt, af hverju á endanum ég ákvað að taka því. Það má segja að það séu áhugaverðir tímar fram undan í atvinnulífinu,“ segir hann og bætir við að þrátt fyrir að næstu mánuðir hið minnsta verði þungir sé gaman að takast á við áskoranir.

Eftirminnileg og skemmtileg ár að baki

Aðspurður segir hann ákvörðun sína eðli málsins samkvæmt hafa komið samstarfsfélögum sínum í Viðreisn á óvart. Betra sé að vera saknað en ekki en maður komi í manns stað. „Flokkurinn hefur verið á góðri siglingu og er með góða forystu. Ég hef enga trú á öðru en hann sigli sterkur áfram.“

Þorsteinn segir árin fjögur á Alþingi hafa verið mjög eftirminnileg og skemmtileg og að reynslan hafi verið feikilega góð. Hann segist hafa eignast góða samstarfsmenn, bæði pólitíska samherja og andstæðinga, sem hann muni sakna. „Það verður mikil breyting að stíga út úr þessu, það er enginn vafi. Ég mun sakna þingsins og líka starfsfólksins en ég bý að þessari reynslu,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert