Hætt að lítast á blikuna

Mardís, Vera María og Viðar á þaki heimilis síns í …
Mardís, Vera María og Viðar á þaki heimilis síns í Brooklyn í New York. Ljósmynd/Aðsend

Mardís Heimisdóttir og eiginmaður hennar, Viðar Jónsson, hafa verið búsett í New York undanfarin fjögur ár og eignuðust sitt fyrsta barn, Veru Maríu, um miðjan febrúar síðastliðinn. Þeim er hins vegar hætt að lítast á blikuna í borginni og hafa fengið hjálp utanríkisráðuneytisins til þess að komast heim til Íslands á meðan hið versta gengur yfir.

„Þegar hún fæðist er faraldurinn í hámarki í Kína og umræðan hafin heima á Íslandi en hún var nánast engin hérna í Bandaríkjunum,“ útskýrir Mardís í samtali við mbl.is, en hún vinnur í samskiptadeild alþjóðlegs fyrirtækis og segist hafa verið orðin mjög meðvituð um að kórónuveirufaraldurinn myndi breiðast út.

Mánuði síðar hafi faraldurinn verið kominn til Bandaríkjanna og farinn að breiðast hratt út, ekki síst í stórborgum eins og New York.

Brugðið við byggingu bráðabirgðasjúkrahúss í Central Park

Mardís segir að eðli málsins samkvæmt, þar sem þau séu með nýbura, hafi litla fjölskyldan verið mest heima hjá sér. Þegar faraldurinn hafi farið að gera almennilega vart við sig í New York hafi þau byrjað að meta stöðu sína og í raun farið fram og til baka. „Fyrst hugsuðum við að við gætum pantað allt heim til okkar og farið út í búð á tímum þar sem væri ekki mikið að gera og stýrt þessu ágætlega,“ segir Mardís.

„En ég held okkur hafi báðum brugðið rosalega mikið þegar þau voru komin með þessa flutningabíla, þessa kælibíla fyrir utan spítalana, sem eru yfirfullir, til að taka á móti líkum, og þegar þau fóru að setja upp bráðabirgðaspítala í Central Park og þegar herskipið kom. Þá fórum við að skoða þetta og ákváðum loks að fara heim.“

Mardís og Viðar á mannlausu Brooklyn Pier í síðustu viku,
Mardís og Viðar á mannlausu Brooklyn Pier í síðustu viku, Ljósmynd/Aðsend

Þar sem þau séu með svo lítið barn hafi þau þó einnig þurft að meta hvort ávinningurinn væri áhættunnar virði, en Mardís segir áhættuna þá aðallega felast í ferðalaginu heim. Hins vegar sé það helst tvennt sem hafi ráðið úrslitum í ákvörðuninni um að koma heim.

„Það er í fyrsta lagi nálægðin við fjölskylduna og að hafa þá einhvern björgunarhring ef á þarf að halda,“ segir Mardís, en við heimkomuna fara þau beint í sóttkví í sumarbústað foreldra hennar. „Þar getum við notið náttúrunnar og farið út að labba án þess að vera í nálægð við fólk. Þótt flestir virði útgöngubannið í New York og séu heima hjá sér þá er það þetta að á góðviðrisdögum eins og í dag fer fólk út að ganga eða hlaupa og það er bara þannig að í svona fjölmennri borg og á svona þröngum göngustígum er erfitt að halda fjarlægð þótt allir geri sitt besta.“

Allt gert til að koma þeim heim

Í öðru lagi sé einfaldlega grafalvarlegt ástand í New York. „Manni er hætt að lítast á blikuna og það verður gott að komast heim til Íslands,“ segir Mardís, en fjölskyldan flýgur heim í gegnum Boston á laugardaginn.

Undirbúningur ferðarinnar var þó ekki vandkvæðalaus með svo lítið barn og tafir á útgáfu fæðingarvottorðs. Þau hafi hins vegar fengið mikla hjálp hjá utanríkisráðuneytinu og séu komin með neyðarvegabréf fyrir Veru Maríu. „Við höfum þá allavega einhverja pappíra til að koma henni heim. Þau hafa verið þvílíkt dásamleg og sveigjanleg og komið til móts við okkur. Það er búið að gera allt til að koma okkur heim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert