Höfum ekki efni á að fórna lífi og heilbrigði fólks

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mín skoðun er sú að við höfum ekki efni á því að fórna lífi eða heilbrigði fólks fyrir skammtímaefnahagsávinning.“ Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra spurður hvort aðgerðir stjórnvalda hér á landi til að draga úr útbreiðslu kórónuveirunnar væru of harðar og væru að valda of miklu tjóni. Var hann spurður að þessu á fjarfundi sem hann hélt á facebooksíðu Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í hádeginu.

Mótefnisvottorð gætu haft gríðarleg áhrif

Bjarni bætti því við að það þyrfti að reyna að láta þetta tvennt spila saman, að gæta að heilbrigði fólks og að minnka efnahagsleg áhrif. Hins vegar væri úr vöndu að ráða og margt spilaði inn í sem ekki væri hægt að taka ákvörðun um hér á landi. Nefndi hann í því samhengi hvenær önnur lönd myndu draga úr hömlum á ferðalögum og hvort og hvenær tækist að búa til bóluefni.

Nefndi Bjarni að komnar væru fram hugmyndir erlendis þar að lútandi að taka upp einskonar mótefnisvottorð sem myndi heimila þeim sem væru með slíkt vottorð að ferðast en öðrum ekki. Sagði hann að slíkar aðgerðir gætu haft gríðarleg áhrif á ferðaþjónustuna um allan heim og ekki síður hér á landi. Bjarni tók þó fram að hann gæti ekki úttalað sig um þessi mál og hversu raunhæft þetta væri, enda ekki sérfræðingur á sviði smitsjúkdóma og útbreiðslu þeirra.

Vægari aðgerðir ekki líklegri til að skila okkur fyrr í mark

Forgangurinn að mati Bjarna í núverandi stöðu var hins vega skýr. Sagði hann að það væri að hefta útbreiðslu veirunnar. Svo þyrfti að huga að því að koma efnahagslífinu af stað þegar búið væri að ná þeim árangri. Sagði hann að Íslendingar þyrftu að stilla aðgerðir sínar þannig að hægt væri að komast í gegnum ástandið með sem minnstum skaða og á sem skemmstum tíma og vera tilbúin þegar birta tæki á ný. „Ég hef ekki trú á því að vægari aðgerðir séu líklegri til að skila okkur fyrr í mark í því efni,“ sagði hann að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina