Leiðsögumenn í vondum málum

Vandi leiðsögumanna um allt land er tvíþættur vegna kórónuveirufaraldursins. Annars …
Vandi leiðsögumanna um allt land er tvíþættur vegna kórónuveirufaraldursins. Annars vegar fellur öll vinna niður næstu mánuði og hins vegar er ráðningarsambandi þeirra við fyrirtæki oft þannig háttað að þeir eiga erfitt með að fá fullar atvinnuleysisbætur nú, þó að vinna þeirra sé í raun full vinna, og skattar sem þeir greiða í takt við það. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Að óbreyttu verða íslenskir leiðsögumenn sérstaklega illa úti vegna kórónuveirufaraldursins þar sem aðgerðir ríkisstjórnarinnar passa ekki við vinnufyrirkomulag þeirra. Á sama tíma er nákvæmlega ekkert að gera í greininni.

Nánast engum leiðsögumanni hefur verið sagt upp vegna ástandsins, segir í tilkynningu frá Leiðsögn stéttarfélagi, en það er vegna þess að langfæstir þeirra eru fastráðnir. Þeir eru öllu heldur verkefna- eða ferðaráðnir launamenn og tilheyra þar með eins konar daglaunakerfi.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem lúta að því að fólk blandi saman hlutastarfi hjá fyrirtækinu sem það starfaði hjá og bótum frá ríkinu ná ekki til leiðsögumanna af því að þeir eru ekki fastráðnir og aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem koma til móts við sjálfstætt starfandi verktaka ná heldur ekki til leiðsögumanna þar sem þeir eru í raun launþegar frekar en verktakar, en á sama tíma eru verkefni þeirra samt tímabundin. 

Á milli skips og bryggju

Þeir falla því á milli skips og bryggju í þessum aðgerðum, að sögn stéttarfélagsins, og ná fæstir fullum atvinnuleysistryggingum sökum ofangreinds vinnufyrirkomulags.

Stéttarfélagið segir eftirfarandi til í umsögn sinni við frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingasjóð: „Til dæmis mætti miða við að ef leiðsögumaður nær lágmarksmánaðartaxta að meðaltali síðastliðna 12 mánuði og af því verið greidd tekjutrygging þá sé það metið sem 100% vinna. Nauðsynlegt er að skoða allt tímabilið þ.e. ekki mánuð fyrir mánuð því ferðaþjónustan er sveiflukennd grein, sem fylgir árstíðum og fríum erlendra ferðamanna. Þ.a.l. geta leiðsögumenn haft stopula vinna einhverja mánuði, undir lágmarkstekjum, en mjög mikla yfirvinnu aðra mánuði.

Einnig mætti skoða önnur úrræði, t.d. borgaralaun eða aðra útfærslu. Bera má störf og stöðu ferðaráðinna leiðsögumanna saman við stöðu listamanna og ef til vill væri rétt að skoða sérstök úrræði eða lausn sameiginlega fyrir þessa hópa.“

mbl.is

Kórónuveiran

30. maí 2020 kl. 14:00
-1802
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir