Loftgæðamælistöðvar fluttar til

Starfsmenn borgarinnar að störfum.
Starfsmenn borgarinnar að störfum. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Loftgæðafarstöðvar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur hafa nú verið fluttar annars vegar á opið svæði borgarinnar á Hringbraut næst Víðimel og hins vegar á opið svæði á gatnamótum Bústaðavegar/Háaleitisbrautar.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að hlutverk heilbrigðiseftirlitsins sé meðal annars að afla upplýsinga, meta loftgæði, setja upp og reka mælistöðvar eftir því sem þörf er á og tryggja að upplýsingar um loftgæði séu aðgengilegar almenningi (lög nr. 7/1998).

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum í borginni og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til. Hægt er að fylgjast með styrk svifryks og annarra mengandi efna á loftgæði.is.

Í Reykjavík eru sex loftgæðamælistöðvar:

  • Tvær fastar stöðvar eru á vegum ríkisins (Umhverfisstofnun) og eru þær staðsettar á gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegar og í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum (FHG). Í stöðinni við Grensásveg fer fram mæling á köfnunarefni (NO2), svifryki (PM10 og PM2,5), brennisteinsvetni (H2S), brennisteinsdíoxíði (SO2) og kolmónoxíði (CO).
  • Tvær stöðvar eru á vegum Orkuveitu Reykjavíkur/Orku náttúrunnar sem staðsettar eru í Norðlingaholti og Úlfarsárdal og þær mæla brennisteinsvetni (H2S).
  • Tvær farstöðvar eru svo á vegum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur en í annarri þeirra fara fram mælingar á köfnunarefni (NO2) og svifryki (PM10) (Loftgæðafarstöð I). Í hinni stöðinni eru mæld köfnunarefni (NO2), svifryk (PM10), brennisteinsvetni (H2S) og brennisteinsdíoxíð (SO2) (Loftgæðafarstöð II).
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert