Þorsteinn Víglundsson hættir á þingi

Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, hefur sagt af sér þingmennsku.
Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, hefur sagt af sér þingmennsku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, hefur sagt af sér þingmennsku og hyggst hann taka við „spennandi verkefni á vettvangi atvinnulífsins“, að því er segir í tilkynningu frá fráfarandi þingmanninum. 

Afsögn Þorsteins tekur gildi frá og með 14. apríl og síðar í mánuðinum tekur hann við nýja starfinu. 

Þorsteinn hefur jafnframt tilkynnt stjórn Viðreisnar afsögn sína sem varaformaður flokksins.

Þorsteinn hefur starfað í stjórnmálum í tæp fjögur ár og tók sæti á Alþingi eftir kosningarnar í október 2016. Þá gegndi hann embætti félags- og jafnréttismálaráðherra árið 2017. Þorsteinn segist vera þakklátur fyrir það traust sem honum hefur verið sýnt á vettvangi stjórnmálanna. 

Tilkynningu Þorsteins má lesa hér í heild sinni: 

Síðdegis í gær tilkynnti ég Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis, að ég hefði tekið ákvörðun um að segja af mér þingmennsku frá og með 14. apríl næstkomandi. Ég hef að vandlega íhuguðu máli samþykkt að taka að mér spennandi verkefni á vettvangi atvinnulífsins og mun hefja störf síðar í þessum mánuði. Þá hef ég á sama tíma tilkynnt stjórn Viðreisnar um afsögn mína sem varaformaður flokksins.

Ég hef starfað í stjórnmálum undanfarin tæp fjögur ár og er þakklátur fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt á þeim vettvangi. Ég hef tvívegis verið kjörinn þingmaður Reykvíkinga og það er mér mikill heiður að hafa fengið að sitja á Alþingi Íslendinga þennan tíma.

Þótt átök einkenni gjarnan störf þingsins í opinberri umfjöllun er mér efst í huga á þessum tímamótum sú dýrmæta reynsla sem ég hef öðlast og góð samskipti og vinskapur við samherja jafnt sem pólitíska andstæðinga. Ég kveð með söknuði allt það góða fólk sem ég hef starfað með á Alþingi á undanförnum árum, bæði þingmenn og ekki síður allt hið hæfileikaríka starfsfólk sem starfar fyrir Alþingi.  

Ég er stoltur af því að hafa tekið þátt í uppbyggingu Viðreisnar. Flokkurinn hefur á fáum árum fest sig í sessi sem öflugur og skýr valkostur fyrir frjálslynt fólk á miðju íslenskra stjórnmála. Flokkurinn hefur sterka innviði og mikinn fjölda hæfileikafólks. Viðreisn hefur þegar markað sér sess til framtíðar í íslenskum stjórnmálum. Ég fer frá borði fullviss um að þetta fley mun áfram sigla seglum þöndum. Viðreisn mun áfram berjast fyrir betra mannlífi og bættum kjörum Íslendinga og ég hlakka til að fylgjast með flokknum af hliðarlínunni.

Virðingarfyllst,

Þorsteinn Víglundsson

mbl.is