Ánægður með vinnu samninganefndanna

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari.
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Samninganefndirnar eru að vinna. Þær fengu ákveðið heimaverkefni í gær sem þær vinna í núna þangað til við hittumst á eftir klukkan eitt,“ segir Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari um gang kjaraviðræðna milli ríkisins og hjúkrunarfræðinga. 

Samninganefndir Félags hjúkrunarfræðinga og ríkisins hafa fundað í húsnæði sáttasemjara frá því á þriðjudaginn. Í gær lauk fundinum klukkan 20. Samninganefndirnar hittast því þriðja daginn í röð á eftir, á skírdag, í Karphúsinu klukkan 13. Þrír úr hvorri nefnd mæta og fara yfir málin auk ríkissáttasemjara. Fram að því fóru fundirnir fram í gegnum fjarfundarbúnað. 

Kjarasamningar hjúkrunarfræðinga hafa verið lausir í um ár. 

„Ég er mjög ánægður með samninganefndirnar. Þær vinna þetta vel og öllum steinum velt við og farið er vel yfir þetta. Samtalið er gott en þetta er flókið og þungt umhverfi og viðfangsefni,“ segir hann. 

mbl.is