Eltur af 40 manna tökuliði á Siglufirði

Fannar hafði virkilega gaman af ferlinu.
Fannar hafði virkilega gaman af ferlinu. Skjáskot/Youtube

Fannar Sveinsson, Siglfirðingur og snjómokstursmaður, tók að sér aðalhlutverk í auglýsingu hjá tæknirisanum IBM á dögunum, og skrifaði undir árs samning við fyrirtækið. Í tvo daga elti 40 manna tökulið Fannar um Siglufjörð ásamt átta eða níu sendibílum og setti það skiljanlega svip sinn á bæinn sem um 1.000 manns búa í. 

Fannar var nýkominn úr vinnunni þegar blaðamaður náði tali af honum. Það hafði verið nóg að gera enda hefur snjóað allhressilega fyrir norðan á síðustu dögum. Þrátt fyrir að vera ungur að árum veit Fannar ekki hversu lengi hann hefur starfað við snjómokstur, hann ólst upp við snjómokstur og hefur verið hjá fyrirtækinu Bási síðan árið 2008. 

Aðilar á vegum IBM heimsóttu mokstursmenn á Íslandi og leituðu að heppilegum kandídötum fyrir auglýsingu fyrir nokkru en loks varð Fannar fyrir valinu. 

„Nokkrum vikum eftir að þeir komu hingað fékk ég símtal og var spurður hvort ég væri tilbúinn í að koma í smá aukaviðtal. Þá komu einmitt nokkrir á vegum IBM heim til okkar. Þremur dögum seinna fékk ég að vita að ég væri valinn í aðalhlutverkið í auglýsingu IBM,“ segir Fannar. 

Á sjónvarpsskjám í Bandaríkjunum

Það reyndi eflaust takmarkað á leiklistarhæfileikana þar sem IBM vildi sjá Fannar vinna, sem hann kann mætavel eftir fjölda ára í mokstri. Snjóleysi setti reyndar strik í reikninginn að sögn Fannars en af myndbandinu að dæma hefur tekist nokkuð vel að finna út úr því. 

Umfang upptakanna vakti athygli á meðal bæjarbúa. „Það vissi náttúrlega enginn hvað var í gangi. Þetta er þúsund manna bær svo þetta vakti alveg spurningar hjá fólki. Maður var alltaf að útskýra þetta fyrir öllum,“ segir Fannar léttur í bragði. 

Auk auglýsingarinnar var tekinn myndaþáttur sem mun birtast í amerískum fjölmiðlum en leikstjóri auglýsingarinnar ætlar sér einnig að gera stuttmynd sem tengist auglýsingunni. Auglýsinguna átti að sýna á meistaramótinu í golfi en því var frestað. Hún hefur nú farið víða um sjónvarpsskjái Bandaríkjamanna.

Af tökustað. Snjórinn var takmarkaður þegar á tökum stóð.
Af tökustað. Snjórinn var takmarkaður þegar á tökum stóð. Ljósmynd/Fannar Sveinsson

Má ekki leika í auglýsingu í heilt ár

En hvers vegna hafði IBM áhuga á snjómokstri í litlum bæ á Íslandi? 

„Þeir vildu láta vita af því að jafnvel í þessum minnstu bæjarfélögum í þessum löndum lengst í norðri værum við að nota tækni dagsdaglega. Þar kemur IBM-hugbúnaðurinn inn,“ segir Fannar. 

Eins og búast má við hefur Fannar mjög gaman af því að starfa í snjómokstri. 

„Pabbi minn á fyrirtækið svo maður hefur alist upp við þetta. Ástæðan fyrir því að maður er búinn að haldast í þessu er fjölbreytnin. Á veturna erum við í snjómokstri og á sumrin erum við verktakar, þá erum við að gera lóðir, laga götur og engir tveir dagar eru eins. Maður er á alls konar græjum, maður keyrir vörubíla, mokstursbíla, gröfur og fleira.“

Ljósmynd af tökustað á Siglufirði. Tökurnar stóðu yfir í tvo …
Ljósmynd af tökustað á Siglufirði. Tökurnar stóðu yfir í tvo daga. Ljósmynd/Fannar Sveinsson

Það er þó ekki úr vegi að spyrja Fannar hvort hann sjái fyrir sér að leggja moksturinn á hilluna og taka að sér auglýsingaleik í framhaldinu. 

„Ekki enn sem komið er alla vega, ég fór á eins árs samning svo ég má ekki leika í annarri auglýsingu í heilt ár á eftir,“ segir Fannar og hlær. 

Í auglýsingunni talar Fannar um mikilvægi snjómoksturs. „Það er einfaldlega þannig að ef við mokum ekki þá kemst fólk ekki þangað sem það vill fara,“ segir Fannar að lokum. 

mbl.is