Landspítali greiði 41 m.kr. í bætur vegna þvagleggs

Atvikið var aldrei tilkynnt til embættis landlæknis og metur Landsréttur …
Atvikið var aldrei tilkynnt til embættis landlæknis og metur Landsréttur það svo að með því hafi sönnunarbyrðin snúist við. mbl.is/Ómar Óskarsson

Landsréttur sneri á þriðjudag við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur og gerði Landspítalanum að greiða karlmanni 41 milljón króna vegna mistaka sem gerð voru við uppsetningu þvagleggs fyrir um átta árum.

Maðurinn fór í aðgerð vegna hjartsláttartruflana árið 2012 og þurfti í kjölfarið að setja upp þvaglegg. Í dómi Landsréttar segir að hjúkrunarfræðingi hafi ekki tekist að koma þvaglegg, sem reyndist vera of stór, upp í þvagblöðru mannsins. Þegar þvagleggurinn var dreginn til baka hafi komið ferskt blóð úr limnum. Minni þvaglegg hafi svo verið komið fyrir.

Atvikið var aldrei tilkynnt til embættis landlæknis og metur Landsréttur það svo að með því hafi sönnunarbyrðin snúist við og að fremur en að tjónþoli yrði að sanna að tjóni hefði verið valdið með saknæmum hætti og hver bæri ábyrgð á því, væri það spítalans að sanna hvort atvikið mætti rekja til gáleysis starfsmanna eða væri óhapp.

Maðurinn lýsti því í héraðsdómi hvernig hann hefði orðið mjög hræddur þegar setja átti upp þvaglegginn og reifst við bæði hjúkrunarfræðing og sjúkraliða. 

Maðurinn sagðist hafa fundið fyrir gríðarlegum sársauka þegar fyrri þvagleggurinn var settur inn í þvagrásina. Blætt hafi úr henni og hann séð hvernig starfsmennirnir gnístu tönnum þegar þær áttuðu sig á að eitthvað væri að. Móðir mannsins skýrði frá því fyrir dómi að hún hefði verið fyrir utan sjúkrastofuna og heyrt son sinn öskra: „nei, nei, nei.“

Í dómnum kemur fram að maðurinn hafi verið með viðvarandi verki í getnaðarlimnum eftir þetta. Hann fái köst með sárum verkjum sem standi allt frá 20 sekúndum upp í nokkrar klukkustundir.  Í dómnum segir jafnframt að maðurinn sé haldinn miklu þunglyndi með lífsleiðahugsunum samhliða áfallastreitueinkennum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert