Látinn standa á bannsvæði

Yfirgefni slökkvibíll í Hlíðunum var skyndilega horfinn í gærkvöldi.
Yfirgefni slökkvibíll í Hlíðunum var skyndilega horfinn í gærkvöldi. mbl.is/Kristján H Johannessen

Mánuðum saman hafði gamalt slökkvibílshræ staðið á akbraut í Skógarhlíð í Reykjavík, eða þar til í gærkvöldi að bíllinn var skyndilega fjarlægður. Allt í kringum bílinn voru skilti sem gáfu til kynna að þar væri bannað að leggja ökutækjum. Hafði Morgunblaðið heimildir fyrir því að íbúar í hverfinu hefðu margsinnis kvartað undan bílhræinu við Reykjavíkurborg.

Guðjón Ingi Eggertsson, heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, sagðist í samtali við blaðið um miðjan dag í gær kannast við bílinn og að um væri að ræða „vandamál“ sem flakkað hefði á milli borgarhluta, en bíllinn hafði einnig staðið í borgarlandi í Grafarvogi öllum til ama þar.

Aðspurður sagðist Guðjón Ingi ekki vita hver væri skráður eigandi að ökutækinu enda búið að fjarlægja númeraplötur fyrir löngu. Yrði hræið fjarlægt af verktaka á vegum Reykjavíkurborgar sagði Guðjón Ingi þá vel hægt að rekja verksmiðjunúmer bílsins.

Spurður hvers vegna bílnum væri leyft að standa á merktu bannsvæði mánuðum saman svaraði hann: „Við erum búin að líma nokkrum sinnum viðvörun á þennan bíl og skrá inn í gagnagrunn hjá verktaka sem sér um að fjarlægja númerslaus ökutæki fyrir okkur. Ég veit ekki af hverju þeir hafa ekki fjarlægt hann en mig grunar að þeir eigi erfitt með að fjarlægja svona stóran bíl.“ Í gærkvöldi var svo bíllinn farinn, sem fyrr segir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert