Rausnarleg nafnlaus gjöf barst LSH

Páll Matth­ías­son for­stjóri Land­spít­ala, segir gjöfina sýna samstöðuna sem ríkir …
Páll Matth­ías­son for­stjóri Land­spít­ala, segir gjöfina sýna samstöðuna sem ríkir í samfélaginu. Ljósmynd/Lögreglan

14 fyrirtæki sem ekki vilja láta nafns getið gáfu Landspítalanum rausnarlega gjöf. Þetta eru 17 öndunarvélar, hlífðarfatnaður og ýmsar lækningarvörur. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, greindi frá þessu á daglegum blaðamannafundi í dag. 

6.500 sóttvarnargrímur, 1.000 varnargallar, 2.500 varnargleraugu og 140 þúsund veirupinnar. „Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi þessa búnaðar alls,“ segir Páll. 

11 öndunarvélar auk búnaðar hafa þegar verið afhentar Landspítalanum. Í næstu viku verða hinar sex afhentar. Landspítalinn er birgðastöð fyrir sjúkrahúsin á landsbyggðinni, „því er mikilvægt að búnaðurinn nýtist landinu öllu“, segir hann. Lækningabúnaðarins var aflað í samvinnu við Landspítalann.

Hann segir gjöfina endurspegla samstöðuna sem ríkir á landinu núna. „Bak við gjöfina er þrotlaus vinna. Mjög mikil útsjónarsemi og harðfylgi við að koma þessu til landsins. Öll ríki eru í kapphlaupi við að fá þessar vörur. Gjöfin er einkar vel tímasett,“ segir Páll.

Páll var spurður um áætlaðan kostnað við gjöfina en hann sagði erfitt að segja til um það því verðið á slíkum vörum hefði breyst. Engu að síður teldi hann gjöfina vera „einhvers staðar norðan við hundrað milljónir“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert