Yfir 12 þúsund í ferðaþjónustunni sótt um bætur

Alls hafa Yfir 30 þúsund manns hafa sótt um hlutabætur …
Alls hafa Yfir 30 þúsund manns hafa sótt um hlutabætur vegna minnkaðs starfshlutfalls til Vinnumálastofnunar. mbl.is/Árni Sæberg

Yfir 12 þúsund starfsmenn í ferðaþjónustunni hafa sótt um bætur vegna minnkaðs starfshlutfalls. Alls hafa yfir 30 þúsund manns sótt um hlutabætur vegna minnkaðs starfshlutfalls. Úr verslun og vöruflutningum hafa yfir sex þúsund umsóknir borist. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alþýðusambandi Íslands. 

Kynjaskipting umsækjenda er nokkuð jöfn. Dreifing umsækjenda milli landshluta er að mestu í samræmi við dreifingu starfandi fólks í landinu. Fjöldi umsækjenda er þó hlutfallslega meiri á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Þannig hafa 11% umsókna borist frá íbúum Suðurnesja, þar sem 8% starfandi landsmanna bjuggu á síðasta ári, og 67% umsókna af höfuðborgarsvæðinu, þar sem 64% starfandi landsmanna bjuggu. 

Ríflega þrír af hverjum fjórum umsækjendum eru íslenskir ríkisborgarar, en um 14% eru Pólverjar og 10% borgarar annarra ríkja. Í fyrra voru um 80% starfandi fólks hérlendis Íslendingar en 20% útlendingar. Endurspegla umsóknir um hlutabætur því betur samsetningu vinnumarkaðarins en umsóknir um atvinnuleysisbætur síðasta árið, þar sem hlutfall Íslendinga meðal umsækjenda hefur verið 63%.

Sé litið til aldursskiptingar eru umsóknir hlutfallslega flestar í aldurshópnum 30-39 ára. Alls eru 26% umsækjenda á þeim aldri, samanborið við 21,6% af starfandi fólki. Lægst er hlutfallið meðal fólks á aldrinum 60-69 ára, en 9% umsækjenda eru á þeim aldri samanborið við 11,7% af starfandi fólki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert