Ánægð með nýjan samning

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. mbl.is/Sigurður Bogi

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, er ánægð með nýjan kjarasamning félagsins við ríkið. Samningurinn var undirritaður í Karphúsinu nú fyrir stundu en hann verður kynntur félagsmönnum í næstu viku og að því búnu lagður í atkvæðagreiðslu félagsmanna. Stefnt er að því að niðurstöður hennar liggi fyrir um mánaðamót. Kjarasamningar hjúkrunarfræðinga höfðu verið lausir frá því í mars í fyrra.

Þar sem félagsmenn hafa enn ekki fengið að sjá samninginn vill Guðbjörg ekki fara ítarlega í innihald hans, en segist þó treysta sér til að mæla með samningnum við félagsmenn. „Annars hefðum við ekki skrifað undir.“

Hún segir stærstu kjarabætur félagsmanna felast í breytingum á vaktavinnufyrirkomulagi og styttingu vinnuvikunnar hjá þeim hópi, úr 40 stundum niður í 36. Þær breytingar byggjast á samkomulagi svokallaðs vaktavinnuhóps ýmissa stéttarfélaga og viðsemjenda þeirra, og hafa nýundirritaðir kjarasamningar BSRB og fleiri stéttarfélaga tekið mið af því.

Aðspurð segir Guðbjörg að „launaliðurinn“ hafi lengi verið til umræðu eftir að náðst hafi samkomulag um ýmsa aðra þætti. Hún vill þó ekki nefna neinar prósentuhækkanir að svo stöddu.

Frá undirritun samningsins í dag.
Frá undirritun samningsins í dag. mbl.is/Íris
Frá undirritun samningsins í dag.
Frá undirritun samningsins í dag. mbl.is/Íris
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert