„Ekki annað í boði“ en að funda í dag

Aðalsteinn, nýskipaður ríkissáttasemjari, segir það vissulega óvenjulegt að fundað sé …
Aðalsteinn, nýskipaður ríkissáttasemjari, segir það vissulega óvenjulegt að fundað sé á föstudaginn langa, en annað sé ekki í boði.

Eins og víða hefur verið greint frá eru kjaraviðræður hjúkrunarfræðinga við ríkið nú í fullum gangi, og funda Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) og samninganefnd ríkisins í Karphúsinu klukkan 13 í dag. 

Athygli vekur að samninganefndirnar fundi á þessum háheilaga degi, föstudeginum langa, og segir Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari það vissulega vera óvenjulegt. „Það er mjög óvenjulegt. Mér finnst bara ekki annað í boði en að leysa þessa deilu, og ég mæti engri andstöðu frá samninganefndunum í því. Það skilja allir hvaða ábyrgð þeir hafa,“ segir Aðalsteinn, en samningar hjúkrunarfræðinga hafa verið lausir í rúmt ár. 

Samninganefndir Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og ríkisins á fundi hjá ríkissáttasemjara …
Samninganefndir Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og ríkisins á fundi hjá ríkissáttasemjara í fyrradag. Tveir metrar á milli allra og spritt á borðinu er lágmark þegar fólk hittist í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er hluti af þeirra ábyrgð að vera ekki að auka á þá óvissu sem er í samfélaginu, heldur þvert á móti draga úr henni og gefa fólki vissu fyrir því að það séu allir að leggjast á eitt og gera sitt besta. Í þeim anda erum við í sama hópi og allir hinir sem eru að leggjast á árarnar um allt samfélagið, í heilbrigðiskerfinu en líka víða annars staðar, til þess að vinna úr stöðunni. Þá er það á okkar ábyrgð að vanda okkur og leysa þetta vandamál.“ 

Samkvæmt dagskrá ríkissáttasemjara stendur fundurinn í dag frá 13 til 18. Aðalsteinn segist ekkert geta sagt um hversu langt sé í land en að samninganefndirnar vinni vel, og vinni vel saman, og hann haldi þeim við efnið.

Samningar hjúkrunarfræðinga við ríkið hafa verið lausir í rúmt ár.
Samningar hjúkrunarfræðinga við ríkið hafa verið lausir í rúmt ár. mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert