Mikið í húfi fyrir hafnirnar

Óvissa ríkir um það hve mörg skemmtiferðaskip koma. Risaskipið Celebrity …
Óvissa ríkir um það hve mörg skemmtiferðaskip koma. Risaskipið Celebrity Reflection hefur áður komið hingað og það er bókað 21. maí með yfir 4.300 manns. En kemur það? mbl.is/​Hari

Íslensk ferðaþjónusta er í algjörri óvissu vegna veirunnar sem nú herjar á heimsbyggðina. Einn geiri hennar er þjónusta við skemmtiferðaskip. Spáð hafði verið metsumri 2020 en nú eru blikur á lofti.

Flestallar útgerðir skemmtiferðaskipa hafa aflýst ferðum út maímánuð og ætla að meta stöðuna í næsta mánuði. „Það lítur út fyrir að apríl og maí séu alveg tapaðir og mikil óvissa að öðru leyti með sumarið,“ segir Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna og formaður Hafnasambands Íslands.

Þetta verður þungt högg fyrir hafnir landsins og sérstaklega Reykjavík, Akureyri og Ísafjörð, sem tekið hafa á móti flestum skipum. Í gær var búið að afbóka 26 ferðir hjá Faxaflóahöfnum en enn standa 163. Hver talan verður á endanum veit svo enginn. Búið er að afbóka allar skipakomur til Reykjavíkur fram að 21. maí.

„Hins vegar virðist enn mikill áhugi á pöntunum fyrir árið 2021 og með haustinu verður óskað eftir staðfestingu á þeim,“ segir Gísli.

Könnun sem samtökin Cruise Iceland létu gera árið 2018 sýndi að koma skemmtiferðaskipa skapaði 920 störf í landinu og 16,4 milljarða tekjur. Tekjurnar voru ennþá meiri í fyrra vegna fjölgunar skipa og stefndu í enn hærri tölur í sumar, áður en veiran stakk sér niður. Sömuleiðis hefði störfum fjölgað yfir 1.000, enda mikil vinna fólgin í því að þjónusta meira en tvær milljónir ferðamanna, sem koma með skipunum. Koma skemmtiferðaskipa hafa því ótvírætt mikil áhrif á efnahag landsins.

Könnunin var unnin í samstarfi við Hafnasamband Íslands. Breska fyrirtækið GP Wild (International) and Business Research & Economic Advisors vann verkið.

Ferðamennirnir eyddu rúmum 18 þúsund krónum í hverri höfn

Könnunin var gerð um borð í skipum sem höfðu viðdvöl á Ísafirði, Akureyri og í Reykjavík á tímabilinu júní til ágúst 2018. Alls voru 2.259 farþegar spurðir. Megintilgangur könnunarinnar var að leiða í ljós hverjar beinar og óbeinar tekjur væru af neyslu farþega skemmtiferðaskipa ásamt útgjöldum skipafélaga í höfnum.

Í ljós kom að meðaltal neyslu hvers viðkomuferðamanns 2018 reyndist vera um 18.050 krónur (145 evrur) í hverri höfn. Þorri aðspurðra farþega (92%) sagðist fara í land á viðkomustöðum á Íslandi og tæp 40% af áhöfnum skipanna. Það samsvarar því að um 427.500 farþegar hafi stigið í land á öllu landinu og um 79.900 skipverjar. Hin beinu efnahagslegu áhrif af komu gesta með skemmtiferðaskipum mælast 70,6 milljónir evra eða um 8,8 milljarðar króna. Þegar óbein áhrif eru reiknuð til viðbótar má ætla að þjóðhagslegur ávinningur af komu skemmtiferðaskipanna nemi 16,4 milljörðum króna.

Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna.
Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna. mbl.is/Kristinn

Þessi könnun mældi hvernig neysla farþega skemmtiferðaskipa eykur íslenska hagsæld. Ýmis önnur bein áhrif koma til viðbótar þegar skemmtiferðaskip hafa viðdvöl í íslenskum höfnum. Þar má nefna hafnargjöld, vistir, skatta og umboðstekjur. Áætlað er að skipafélögin hafi greitt rúmlega milljarð króna (8,3 m. evra) í hafnargjöld.

„Það er einsýnt að það verður tekjufall hjá Faxaflóahöfnum, spurningin er bara hversu mikið,“ segir Gísli Gíslason. Beinar tekjur í fyrra af þessum skipum voru um 600 milljónir króna og reiknað var með einhverri aukningu í ár. „Við erum að setja upp mismunandi sviðsmyndir um hvað getur gerst, meðal annars hvað gerist ef enginn kemur.“

Heildartekjur hafna á Íslandi voru alls 10 milljarðar 2018. Fimmtán hafnarsjóðir höfðu tekjur af komu skemmtiferðaskipa á árinu 2018, alls 1.051 m.kr. sem er 10,4% af tekjum hafnarsjóða í heild.

Herða þarf reglur um komur farþega

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur boðað að setja þurfi mun stífari reglur um komur ferðamanna með skemmtiferðaskipum. Þetta er skiljanlegt með það í huga að veiran getur borist um heiminn í marga mánuði enn.

Gísli Gíslason kveðst eiga von á að heyra fljótlega frá Þórólfi og í framhaldinu verði sest yfir málið.

Gríðarlegur fjöldi er um boð í stærstu skemmtiferðaskipunum sem hingað koma. Skipið, sem bókað er 21. maí nk., heitir Celebrity Reflection og er rúmlega 125 þúsund brúttótonn. Skipið getur tekið 3.046 farþega og í áhöfn eru um 1.270 manns. Þetta eru því í heildina rúmlega 4.300 manns, eða eins og heilt samfélag í landi.

Aðeins eitt skemmtiferðaskip hefur komið í ár, Magellan, með 1.452. Þegar menn komu þaðan í land 9. mars sl., var gengið úr skugga um að enginn þeirra væri með kórónuveiruna.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. apríl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert