Vonar að fæstir þurfi að kveðja við þessar aðstæður

Dóttir konunnar greinir frá því í færslu á Facebook að …
Dóttir konunnar greinir frá því í færslu á Facebook að í síðustu viku hafi útlit verið fyrir að móðir hennar myndi vinna baráttuna við veiruna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Konan sem lést vegna COVID-19 á Landspítalanum í morgun hét Annalisa Jansen og var 81 árs. Hún hafði legið á deild A6 í tæplega þrjár vikur. Dóttir konunnar greinir frá því í færslu á Facebook að í síðustu viku hafi útlit verið fyrir að móðir hennar myndi vinna baráttuna við veiruna. Hún hafi svo fengið hjartaáfall um helgina sem líkaminn hafi ekki ráðið við.

Anna Margrét Ólafsóttir, dóttir konunnar, segir það búið að vera erfitt fyrir fjölskylduna að þurfa að kveðja móður hennar í þessum aðstæðum og að hafa ekki getað verið hjá henni síðasta spölinn nema stutta stund í einu. Hún segir að starfsfólk A6 hafi gert allt sem í þeirra valdi stóð og rúmlega það til að gera þetta bærilegra fyrir fjölskylduna.

Lýsir hún jafnframt upplifun sinni af því að koma inn á deildina: „Upplifunin mín var eins og ég væri aukaleikari í hryllingsmynd bíðandi eftir „cut“-skipun frá leikstjóranum þegar ég gekk inn í rýmið þar sem smitaðir einstaklingar voru. Ég vona heitt og innilega að sem fæstir aðstandendur þurfi að kveðja sína nánustu við þessar aðstæður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert