Lofar góðu en ekki endilega „hið eina sanna lyf“

Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans.
Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans. Ljósmynd/Skjáskot

„Þetta er veirulyf sem er upphaflega þróað til þess að reyna að hafa áhrif á veirur á borð við SARS og MERS sem eru náskyldar SARS-CoV-2,“ segir Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, um lyfið Remdesivir í samtali við mbl.is.

Lyfið hefur verið notað víðs vegar um heiminn gegn COVID-19-sjúkdómnum og niðurstöður frumrannsókna vekja vonir um að hægt sé að nota það gegn kórónuveirunni. Þær sýna að tveir af hverjum þremur sem veikst hafa alvarlega af völdum kórónuveirunnar sýni batamerki eftir tilraunameðferð lyfsins sem bandaríska lyfjafyrirtækið Gilead framleiðir.

Niðurstöðurnar voru birtar í vísindaritinu New England Journal of Medicine á föstudaginn. Lyfið var prófað á 61 sjúklingi í Evrópu, Japan, Bandaríkjunum og Kanada. Allir sjúklingarnir fengu tíu daga skammt af því í æð.  Höf­und­ur grein­ar­inn­ar seg­ir niður­stöðurn­ar vekja von­ir en erfitt sé að túlka niður­stöðurn­ar þar sem eng­inn sam­an­b­urðar­hóp­ur var til staðar og sjúk­ling­ar frek­ar fáir.

Gátu ekki keypt lyfið á meðan enginn var í öndunarvél

„Við þekkjum lyfið en höfum ekki fengið það hingað til Íslands. Við höfum gert ráðstafanir til að reyna að fá það en þegar þessi faraldur fór af stað var hægt að fá þetta lyf á líknarforsendum, það sem kallað er „compassionate use basis“, og við höfðum hugsað okkur að gera það en forsendan fyrir því að fá þetta lyf með þessum hætti var að sjúklingarnir væru komnir i öndunarvél,“ segir Már.

Með líknarforsendum (e. compassionate use) er átt við þær kringumstæður þegar lyf, sem talið er að gæti virkað, er notað sem meðferð við alvarlegum veikindum. Lyfið getur verið nýtt og ósamþykkt eða samþykkt en upphaflega þróað til notkunar gegn annars konar veikindum. Lyfið er þá notað þegar aðrar engar aðrar meðferðir virka, eða þegar „allt annað þrýtur“ eins og Már segir.

„Við reyndum að fá þetta keypt en þá var enginn kominn á öndunarvél. Þegar fyrsti sjúklingurinn fór á öndunarvél var faraldurinn að komast í hámæli, allar uppsprettur lyfsins frosnar og ekki hægt að fá lyfið,“ bætir hann við.

Virkar á ensím sem fjölfaldar veiruna

Már tekur þó fram að rannsóknin á lyfinu hafi verið einhliða og þó að niðurstöðurnar lofi góðu sé ekki hægt að fullyrða neitt um gæði lyfsins nema gera samanburðarrannsókn. Þær rannsóknir séu í gangi núna og ekki sé hægt að segja að Remdesivir sé „hið eina sanna lyf“ fyrr en þeim er lokið.

Lyfið hefur verkun á það sem kallast RNA-pólymerasi, sem er fjölfaldari og nauðsynlegt ensím til að fjölfalda veiruna. Með því að hindra starfsemi hans er hægt að koma í veg fyrir alvarleg veikindi. En Már bætir við að það skipti máli hvenær lyfið er notað.

„Maður ætti að nota þetta snemma í sjúkdómsferlinu til að koma í veg fyrir að fólk fái alvarlega sýkingu í lungun. Það er spurning hvort þetta hafi mikla verkun seint í sjúkdómsferlinu. Við erum ekki ennþá komin með þetta til landsins en höfum gert ráðstafanir. Uppsprettan er bara svo lítil ennþá og ég veit ekki hvort lyfið sé farið í fjöldaframleiðslu vegna þess að það er ekki búið að sýna fram á að þetta sé lyf,“ útskýrir hann og leggur áherslu á greininn.

Ætla að gera rannsókn á japönsku lyfi

En Landspítalinn hefur þó náð að panta um 500 skammta af lyfinu Favipiravir sem er japanskt lyf og kom á markað fyrir um sex árum. Það var þróað sem lyf gegn árstíðabundnum flensum. Til stendur að gera samanburðarrannsókn á lyfinu þegar það kemur frá Japan.

Kínversk heilbrigðisyfirvöld hafa sagt að sýktir einstaklingar sem fengu lyfið í Shenzen í Kína hafi verið fljótari að ná sér af COVID-19-sjúkdómnum en þeir sem ekki fengu lyfið. Japönsk heilbrigðisyfirvöld eru þó ekki alveg jafn viss um ágæti lyfsins. Það var notað í baráttunni gegn ebólufaraldrinum í Gíneu árið 2016.

„Favipiravir var framleitt gegn inflúensu en hefur breiða verkun á RNA-veirur eins og SARS-CoV-2 er. Við erum að sækja um leyfi til þess að gera samanburðarrannsókn á Hydroxychloroquine og Favipiravir. Það fer af stað fljótlega,“ segir Már.

mbl.is

Bloggað um fréttina