Töluvert um símtöl til Píeta-samtakanna

Frá vetrarsólstöðugöngu Píeta-samtakanna.
Frá vetrarsólstöðugöngu Píeta-samtakanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Píeta-samtökin höfðu símann opinn í fyrsta sinn allan sólarhringinn um páskana og var töluvert um símtöl til samtakanna. Greinilegt er að samkomubann reynist fólki erfitt og einangrun, sem kannski var töluverð fyrir, verður meiri. Vandinn er mikill og margir sem óttast um framhaldið, segir í tilkynningu sem samtökin sendu frá sér. 

„Við bregðumst við lífinu eins og það er núna  á þann hátt að hafa símann opinn og bjóða upp á hlýlegt spjall. Svo er ráðgjafi til staðar til að veita viðtal samdægurs og vinnur að því að koma viðkomandi til meðferðaraðila sem fyrst. Við erum afar meðvituð um að okkar hlutverk er að bregðast við aðstæðum með öllum leiðum sem mögulegar eru og okkur færar,“ segir Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Píeta-samtakanna, í fréttatilkynningu.

„Samtökin hafa verið starfrækt í tvö ár og stækkað hratt. Ef litið er til dagsetninga má sjá að 6. apríl 2018 var einn skjólstæðingur í meðferð. 6. apríl 2019 voru þeir 64 og 6. apríl 2020 eru 98 í fullri meðferð hjá okkur,“ segir Kristín ennfremur í tilkynningu. 

„Þó svo að almenn þjónusta þarna úti í samfélaginu hafi breyst eða skerst er mikilvægt að muna að fæstum líður vel í svona ástandi og því verður að minna á það. Það hefur hvarflað að mér sá möguleiki að fólk upplifi að það sé skortur á heilbrigðisþjónustu og fólk jafnvel hugsi að það sé að taka tíma frá öðrum sem þurfi meira á honum að halda en það sjálft. Það er ekki rétt.

Til að koma til móts við samfélagið höfum við aukið síma- og fjarþjónustu okkar, netspjallið er opið og meðferðaraðilar okkar leggja mikið á sig til þess að finna leiðir til að halda áfram meðferðarstarfi. Engum er vísað frá og besta leiðin er fundin fyrir hvern einstakling fyrir sig,“ segir ennfremur í fréttatilkynningu.

Píeta-samtökin, sem starfa undir leyfi landlæknisembættisins, bjóða upp á gjaldfrjálsa þjónustu fyrir einstaklinga sem hafa tíðar hugsanir um að vilja ekki lifa, sjá ekki tilgang með lífinu, leita leiða til að binda enda á líf sitt, hafa misst vonina og líta á sjálfsvíg sem leið út úr vanlíðan. Einnig er boðið upp á viðtöl fyrir aðstandendur þeirra. 

Sjá nánar á vef Píeta-samtakanna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert