Þorbjörg Sigríður tekur sæti á þingi

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, nýr þingmaður Viðreisnar.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, nýr þingmaður Viðreisnar. Ljósmynd/Háskólinn á Bifröst

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir tók í dag sæti á Alþingi, sem sjöundi þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður. Þorbjörg undirritaði drengskaparheit að stjórnarskránni í upphafi þingfundar í dag en hún tekur við þingmennsku af Þorsteini Víglundssyni sem sagði af sér þingmennsku í vikunni til að taka við forstjórastöðu fyrirtækisins Hornsteins.

Þorbjörg er lögfræðingur að mennt og lauk framhaldsnámi í lögfræði frá Columbia í New York. Hún var aðstoðarmaður Þorsteins Víglundssonar þegar hann gegndi embætti félags- og jafnréttismálaráðherra, auk þess að hafa verið pistlahöfundur á Fréttablaðinu. Hún hefur áður verið deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst auk þess að gegna embætti aðstoðarsaksóknara hjá ríkissaksóknara. Hún skipaði annað sætið á lista Viðreisnar í þingkosningum 2017.

Þorbjörg tekur sæti sem aðalmaður í allsherjar- og menntamálanefnd, umhverfis- og auðlindanefnd og þingmannanefnd EFTA og EES.

mbl.is