Engar sektir fyrir nagladekk fyrr en í maí

Lögreglan mun ekki sekta fyrir nagladekk undir bílum fyrr en …
Lögreglan mun ekki sekta fyrir nagladekk undir bílum fyrr en í fyrsta lagi í maí. Samkvæmt lögum er þó bannað að vera með nagladekk eftir 15. apríl, nema aðstæður gefi tilefni til annars. mbl.is/Ómar Óskarsson

Frá og með deginum í dag eru nagladekk bönnuð undir bílum samkvæmt lögum, nema að aðstæður gefi tilefni til annars. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun hins vegar ekki byrja að sekta ökumenn fyrir að vera á nagladekkjum, en venjulega er ekki byrjað á því fyrr en eftir 10 maí.

Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á umferðadeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að lagabókstafurinn taki sérstaklega fram að hægt sé að víkja frá banninu ef aðstæður séu þannig að lögreglan telji rétt að heimila akstur á nagladekkjum. Það eigi jafnan við í apríl að þá geti komið næturfrost og að á Hellisheiðinni geti stundum verið hálka út mánuðinn og jafnvel lengur. Segir hann að lögreglan fari ekki af stað með sektir vegna þessa fyrr en talið sé að suðvesturhornið sé allt orðið þannig að öruggt sé að setja sumardekk undir og réttmætt sé að byrja að beita sektum.

„Í fyrra var fyrsta sektin 20. maí,“ segir Guðbrandur og bætir við að venjulega byrji lögreglan að sekta á milli 10. og 20. maí, en aldrei hefur verið sektað í apríl. „Þetta fer eftir tíðafari hverju sinni.“

Spurður hvort aðstæður í samfélaginu nú hafi einhver áhrif segir Guðbrandur að lögreglan muni fylgjast með hvernig verkstæði muni afkasta að skipta um dekk, en að engin ákvörðun hafi verið tekin með hvort það muni hafa áhrif til að færa dagsetningar til.

mbl.is