Réðust á mann á gangi með hund sinn

Tveir einstaklingar voru handteknir vegna heimilisofbeldis í nótt.
Tveir einstaklingar voru handteknir vegna heimilisofbeldis í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nokkrir ungir menn réðust á karlmann á sjötugsaldri sem var úti að ganga með hundinn sinn laust eftir klukkan tíu í gærkvöld. Maðurinn hlaut nokkra áverka. Ákveðnir menn eru grunaðir um ódæðið og fer málið í rannsókn. Atvikið átti sér stað í hverfi 105 í Reykjavík. 

Þá brutust fjórir menn inn í húsnæði og réðust á húsráðanda. Þeir veittu honum talsverða áverka með bareflum. Gerendur eru ófundnir en einnig eru ákveðnir menn grunaðir. Þessi árás átti sér stað klukkan 02:40 í nótt. Málið er í rannsókn.

Heimilisofbeldi á tveimur heimilum í nótt

Lögreglan var kvödd á vettvang í tvö heimahús í nótt þar sem heimilisofbeldi átti sér stað. Tveir einstaklingar voru handteknir og þeir vistaðir í fangageymslu.  

Slagsmál brutust út um klukkan ellefu í gær í hverfi 101. Þegar lögregla kom á staðinn voru slagsmálin yfirstaðin. Einn ökumaður var stöðvaður í hverfi 105. Hann er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, vörslu ólöglegra stera og hnúajárns.  

Tilkynnt að búið væri að brjóta nokkrar rúður í grunnskóla í hverfi 113. Upptökur úr öryggismyndavélum verða skoðaðar.

Frá klukkan fimm í gærdag til klukkan fimm í nótt voru bókuð 50 mál hjá lögreglu og fimm einstaklingar vistaðir í fangageymslu. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

mbl.is