Hreinsuðu andrúmsloftið á fundi í dag

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. mbl.is/Árni Sæberg

Andrúmsloftið var hreinsað á fundi forseta Alþingis með þingflokksformönnum í dag eftir uppákomuna í morgun þegar þingfundi var slitið eftir aðeins fimm mínútur. Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sagði að verið væri að brjóta gegn samkomubanni með því að hafa fleiri en 20 manns í salnum.

Steingrímur  J. Sigfússon, forseti Alþingis, segir að á fundinum í dag hafi menn farið yfir málið og hreinsað andrúmsloftið með því að segja sína skoðun. „Þetta var gagnlegt og allt í góðu. Ég hef fulla trú á að við jöfnum okkur á þessu og horfum fram á veginn og þegar kemur að því að taka næstu stóru aðgerðamál fyrir verði það unnið í góðu samstarfi,“ segir Steingrímur.

Næsti þingfundur líklega eftir helgi

Einnig var rætt um framhald þingstarfa á fundinum. „Við horfðum fram á veginn og ræddum framhaldið. Það er í gangi athugun á því hvað bíður okkar næstu dagana,“ bætir Steingrímur við.

Hann bendir á að ríkisstjórnarfundur verði haldinn á morgun og að ráðherrarnir séu á kafi í að klára aðgerðapakka vegna kórónuveirunnar. Segist hann ekki bjartsýnn á að það takist að halda þingfund á morgun en eitt aðaltilefni fundarins er óundirbúinn fyrirspurnartími þar sem ráðherrar eru til svara. Ekkert varð af fyrirspurnartímanum í morgun eftir að þingfundinum var slitið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert