Óttast bakslag

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn óttast að það geti komið bakslag í …
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn óttast að það geti komið bakslag í þróunina ef fólk verður kærulaust vegna boðaðra afléttinga. Hann segist hafa heyrt af því að fólk sé farið að skipuleggja stærri hittinga á næstu dögum. Ljósmynd/Júlíus Sigurjónsson

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hóf blaðamannafund almannavarna á því í dag að ítreka fyrir fólki að „það væri ekki kominn fjórði maí.“ Hann óttast að það geti komið bakslag í þróunina ef fólk verður kærulaust vegna boðaðra afléttinga.

„Við fengum á tilfinninguna í gær að fólki væri létt og við áttum von á því en við áttum ekki von á því endilega að fólk byrjaði að hugsa að það væri kominn 4. maí. Það eru enn tæpar þrjár vikur þangað til. Við erum enn að berjast við þetta af sama krafti og síðustu vikurnar. Þegar menn hugsa sig bara aðeins um er enginn áhugi hér á að fá eitthvert bakslag,“ sagði Víðir.

Víðir fór ekki út í að nefna sérstök dæmi um hvernig fólk hafi verið farið að slaka á taumnum eftir tilkynninguna á þriðjudag en sagði að fleira fólk hefði einfaldlega verið á ferli á ákveðnum stöðum. „Það er svo sem eðlilegt, fólk verður að halda áfram að lifa, versla og fara á veitingastaði, en það eru stærri hópar sem okkur hefur verið bent á að séu að hittast, og að menn séu farnir að plana næstu daga í uppákomum og slíku. Það er ekki tímabært,“ sagði Víðir.

Steinunn Ása Þorvaldsdóttir, þáttastjórnandi þáttarins með Okkar augum á RÚV, spurði Víði hvenær mætti knúsast á nýjan leik, spurning sem hann sagði að væri besta spurning dagsins. Svarið við henni lægi þó ekki fyrir, maí væri ólíklegur, júní hugsanlegur en hann væri sjálfur að vona júlí.

Bíó og leikhús geta opnað ef þau finna leiðir

Víðir var spurður hvort bíó og leikhús gætu opnað í maí og hann sagðist efast um að þessar stofnanir gætu haft mikla starfsemi á meðan hlíta þyrfti 50 manna fjöldatakmarki. „En fólk er hugmyndaríkt og finnur ýmsar leiðir til að fylgja reglunum, þannig að ef menn uppfylla þær kröfur sem verða í auglýsingunni þegar hún verður birt, þá geta þeir náttúrulega hafið starfsemi. En undanþágur eru ekki veittar nema það séu brýn þjóðhagsleg markmið með því,“ sagði hann.

Víðir nefndi einnig að ákveðin áskorun fælist í útfærslu skólastarfsins þar sem hópar geti verið stærri en 50 og ógerningur að halda 2 metra regluna. Enn sé verið að skoða hver besta útfærslan í þessum efnum er.

Að lokum var hann spurður út í hugsanlegt brot á fjöldatakmarki inni á Alþingi í morgun og svaraði: „Það hefur enn ekki borist tilkynning um það en ef hún berst verður það örugglega rannsakað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert