„Reyndum að tala forseta af þessu í allan gærdag“

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Hari

Málið sem ágreiningur er um og varð til þess að þingmenn brutu gegn samkomubanni inni í þingsal Alþingis er frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar um vegaframkvæmdir. Í frumvarpinu er heimild til að leggja á vegagjöld sem margir eru ósáttir með.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, segir að Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hafi sett málið á dagskrá vitandi það að það væri ágreiningur um það og að fleiri en 20 þingmenn þyrftu að mæta til að taka þátt í umræðum um það.

Setjum starfsfólk í hættu

„Það mega ekki vera nema 20 á efri hæð þingsins en inni í þingsal voru komnir 26 saman. Það var alveg skýrt enda var það stefna forsætisnefndar að vera ekki með þingfundi nema tvo í viku og þá væru það mál tengd COVID-19 sem ekki væri ágreiningur um. Ef það á ekki að virða það sem sóttvarnayfirvöld í landinu segja þá erum við bara að setja starfsfólkið okkar í hættu,“ segir Jón í samtali við mbl.is.

Hann segist hafa sent tölvupóst á þingmenn fyrir nokkrum vikum þar sem hann skammaði Steingrím fyrir að halda atkvæðagreiðslu sem var ekki í samræmi við þau fyrirmæli sem sett hafa verið um t.d. tveggja metra regluna. Eftir það hafi starfsfólk Alþingis þakkað honum fyrir að stöðva framkvæmdina og í framhaldinu hafi verið tekin upp önnur aðferð við atkvæðagreiðslu sem uppfyllti sóttvarnareglur.

„Við reyndum að tala forseta af þessu í allan gærdag. Margir í forsætisnefnd, þingflokksformenn og formenn flokka reyndu að tala hann af því að setja á dagskrá þingsins mál sem ágreiningur er um og tengist ekki COVID-19. En hann ákvað að halda þessu til streitu,“ bætir Jón við.

Nauðsynleg mál og eftirlit með framkvæmdavaldinu

En er þá einhver leið að fjalla um mál sem minnsti ágreiningur er um?

„Nei og það hefur bara gengið vel. Þau mál sem þarf að afgreiða eins og þú hefur séð, það hafa allir verið á grænu með þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar, þó að aðkoma minnihlutans hafi verið mjög lítil,“ segir hann og heldur áfram:

„Við höfum verið að kalla eftir fleiri óundirbúnum fyrirspurnum til að geta sinnt eftirliti með framkvæmdavaldinu og allt þetta er hægt að gera án þess að fara gegn reglum um samkomubann og sóttvarnatilmæli.“

Brjóta sóttvarnalög eða brjóta loforð

Jón Þór segir að Alþingi geti ekki leyft sér að fara umfram það sem sóttvarnayfirvöld segja um 20 manna samkomur en Alþingi geti þó verið starfshæft með mál sem eru nauðsynleg auk þess sem það getur sinnt eftirliti með framkvæmdavaldinu, með færri en 20 þingmönnum auðvitað.

„Sem þingmaður þá stendur þú vörð um þau gildi, loforð, væntingar kjósenda og almannahag. Þegar þingforseti setur stöðuna svona upp, þá annað hvort gerir þú það ekki eða þú ferð á svið við sóttvarnalög. Það er ekki hægt að bjóða þinginu upp á þetta, starfsfólki eða þjóðinni,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert