Atvinnuleysi 9,2% í mars og stefnir í 17% í apríl

Atvinnuleysi í mars mældist samtals 9,2%
Atvinnuleysi í mars mældist samtals 9,2% mbl.is/Hari

Atvinnuleysi í mars mælist 9,2% og hækkar úr 5% í febrúar. Þeir sem urðu fyrir minnkuðu starfshlutfalli telja 3,5% í marsmánuði. Þetta kemur fram í nýjum tölum Vinnumálastofnunar. Þá er áætlað að atvinnuleysi muni aukast mikið fyrir aprílmánuð, en Vinnumálastofnun segir að gera megi ráð fyrir 16,9% atvinnuleysi í apríl, en þar af telur minnkað starfshlutfall 10,1%. Spáir stofnunin því að atvinnuleysi muni svo lækka í maí sökum aukinna umsvifa á ákveðnum sviðum efnahagslífsins.

Fyrirtæki tengd flugsamgöngum og ferðaþjónustu hafa hvað mest fundið fyrir þeim afleiðingum þar sem komur erlendra ferðamanna hafa nánast lagst af og sama er að segja um ferðalög Íslendinga innanlands sem utan.

Um 5.200 fyrirtæki hafa nýtt sér þann möguleika að minnka starfshlutfall, allt niður í 25% starf á móti 75% greiðslum atvinnuleysisbóta. Nam fjöldi einstaklinga í marsmánuði sem féllu undir þetta úrræði 24.400. Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir því að allt að 6.500 fyrirtæki muni nýta þetta úrræði fyrir allt að 35.000 launþega á því tímabili sem úrræðið er heimilt.

Fjöldi einstaklinga á atvinnuleysisskrá í lok mars var nálægt 38.600, þar af um 24.400 í minnkuðu starfshlutfalli sem fyrr segir og ríflega 14.200 manns að auki á almennum atvinnuleysisbótum.

Atvinnuleysi mælist 14,1% á Suðurnesjum í heild, en hæst er hlutfallið í Reykjanesbæ þar sem 15,6% atvinnuleysi er. Gerir stofnunin ráð fyrir að atvinnuleysi á Suðurnesjum muni í næsta mánuði ná upp í samtals 23,7%, en þar af verði 13,4% á hlutastarfaúrræðinu.

Á höfuðborgarsvæðinu var atvinnuleysi í mars 9,6% og hækkaði úr 5% í febrúar. Á Suðurlandi fór atvinnuleysi úr 3,6% upp í 8,3% og á Austurlandi úr 2,8% í febrúar í 6,4% í mars.

Á Norðurlandi eystra er atvinnuleysi í mars 7,6%, en ástandið er einna verst í Skútustaðahreppi þar sem atvinnuleysið er komið hátt í 15%. Á Vesturlandi eykst atvinnuleysi og var í mars 6,2%, á Vestfjörðum mælist það 4,9% og á Norðurlandi vestra 4,3%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert