Landamerkjamál gæti sett Hvalárvirkjun í uppnám

Eyvindarfjarðarvatn og Eyvindarfjarðaá fyrir framan Drangajökul.
Eyvindarfjarðarvatn og Eyvindarfjarðaá fyrir framan Drangajökul. mbl.is/Golli

Meirihluti eigenda jarðarinnar Drangavíkur í Árneshreppi, eða 75% þeirra, hafa höfðað landamerkjamál til þess að fá skorið úr um rétt merki milli Drangavíkur og jarðanna Engjaness og Ófeigsfjarðar.

Eigendurnir telja að fyrirhuguð Hvalárvirkjun nái langt inn á eignarland sitt en fyrir því liggur ekkert samþykki. Nýting vatnasviðs Eyvindarfjarðarvatns er ein af forsendum Hvalárvirkjunar en eigendur Drangavíkur telja vatnið vera í sínu landi. Þeir hafa lýst sig andvíga virkjuninni og ætla ekki að heimila nýtingu vatnsréttinda jarðarinnar í þágu hennar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá eigendunum og þar sem segir að ástæða málshöfðunarinnar sé „vilji til þess að óbyggðir Ófeigsfjarðarheiðar,  vatnsföllin, fossarnir og strandlengjan fái að vera óröskuð um ókomna tíð og náttúran fái að þróast á eigin forsendum.“

„Hvalárvirkjun mun ekkert gera fyrir mannlíf á Ströndum norður, heldur þvert á móti eyðileggja þá möguleika sem felast í náttúruvænni uppbyggingu atvinnulífs til framtíðar. Hvalárvirkjun er ekki nauðsynleg til að tryggja raforkuöryggi á Vestfjörðum og bygging hennar myndi ennfremur leiða til neikvæðra umhverfisáhrifa af háspennulínum og vegslóðum í óbyggðum.“

Aðalkrafan er sú að viðurkennt verði með dómi að landamerki Drangavíkur gagnvart hinum jörðunum eins og þeim var lýst í þinglýstum landamerkjabréfum frá 1890 og öðrum heimildum.

Varakrafan endurspeglar hugsanlega túlkun þinglýstra landamerkjalýsingar Ófeigsfjarðar en breytir þó engu um rétt til ráðstöfunar Eyvindarfjarðavatns.

Kortið sýnir muninn á aðal- og varakröfu í málinu.
Kortið sýnir muninn á aðal- og varakröfu í málinu. Kort/Sigurgeir Skúlason
Þau landamerki sem sýnd eru í gögnum Hvalárvirkjunar og gefa …
Þau landamerki sem sýnd eru í gögnum Hvalárvirkjunar og gefa til kynna að Eyvindarfjarðarvatn heyri til Engjaness og Ófeigsfjarðar eru byggð á síðari tíma ágiskunum í tengslum við verkefnið Nytjaland. Sá landamerkjagrunnur er birtur án ábyrgðar og byggir ekki á þinglýstum landamerkjalýsingum, segir í tilkynningunni. Kort/Sigurgeir Skúlason
Síðastliðið sumar var Sigurgeir Skúlason landfræðingur fenginn til að hnitsetja …
Síðastliðið sumar var Sigurgeir Skúlason landfræðingur fenginn til að hnitsetja landamerki jarðanna eftir landamerkjalýsingum frá 1890, í fyrsta og eina sinn sem það hefur verið gert. Eru landamerkin á uppdrætti Sigurgeirs í samræmi við þá vitneskju sem alla tíð hefur legið fyrir meðal heimamanna. Byggja eigendur Drangavíkur á þessu og margvíslegum öðrum heimildum í dómsmálinu, svo sem máldögum, jarðamati, sóknarlýsingum og Landnámabók. Kort/Sigurgeir Skúlason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert