Vigdís og Margrét fengu báðar nöfnu í afmælisgjöf

Hérna má sjá hana Margréti litlu nýkomna í heiminn.
Hérna má sjá hana Margréti litlu nýkomna í heiminn. Ljósmynd/Aðsend

Það fjölgaði um tvo ferfætlinga í litla dýragarðinum á Hólum í vikunni, en þá komu í heiminn tvær huðnur sem fengu nöfnin Vigdís og Margrét. Nöfnin eru svo sannarlega ekki út í loftið enda kom sú fyrri í heiminn 15. apríl, á afmælisdegi Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, og sú síðari 16. apríl, á afmælisdegi Margrétar Þórhildar Danadrottningar. Það þótti við hæfi að heiðra þessa tvo þjóðhöfðingja með nafngiftinni enda er haldið danskt/íslenskt heimili á Hólum. Hér fyrir neðan má sjá myndbönd af huðnunum og skemmtilegar lifandi afmæliskveðjur til Vigdísar og Margrétar.

Það fer vel um Vigdísi í fanginu á Alexander Steini.
Það fer vel um Vigdísi í fanginu á Alexander Steini. Ljósmynd/Aðsend

„Það var aldrei spurning með þessi tvö nöfn,“ segir Rebecca Cathrine Kaad Ostenfeld, eigandi dýragarðsins, hlæjandi í samtali við mbl.is. „Ég er bara með fjórar geitur sem eiga að bera núna þannig að þetta gátu allt eins verið hafrar, en þetta voru tvær huðnur. Við fórum bara að hlæja, þetta gat ekki passað betur.“ Börnin hennar þrjú; Matthías Hálfdán, 13 ára, Kristjana Maj, 10 ára, og Alexander Steinn, átta ára, voru líka algjörlega sammála með nöfnin. Fyrir tveimur vikum kom hins vegar í heiminn hafur þannig að kvenkynið er ekki alveg ráðandi.

Vigdís fer ekki langt frá mömmu sinni.
Vigdís fer ekki langt frá mömmu sinni. Ljósmynd/Aðsend

Rebecca er sjálf dönsk, þannig að tilviljunin gat eiginlega ekki verið skemmtilegri. Hún hefur búið á Íslandi um árabil og rekur dýragarðinn á Hólum rétt fyrir utan Búðardal. „Ég tek að mér dýr sem vantar heimili, dýr sem eru fötluð eða hafa lent í slysi. Við erum með mjög skemmtilega flóru hérna. Við erum samtals með sjö geitur og talandi krumma,“ segir hún en margar fleiri dýrategundir njóta sín í góðu yfirlæti í garðinum.

Kristjana Maj knúsar Margréti.
Kristjana Maj knúsar Margréti. Ljósmynd/Aðsend
Matthías Hálfdán heldur hér á Margréti.
Matthías Hálfdán heldur hér á Margréti. Ljósmynd/Aðsend



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert