Bankar of áhættufælnir

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS. Skjáskot/RÚV

Ein af mistökum hrunsins voru þau að skilgreiningin á hvað teldist refsiverð háttsemi banka var of víðtæk og fyrir vikið er áhættufælni íslenskra banka mjög mikil. Þetta sagði Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, í Silfrinu á RÚV í dag en hún var gestur þáttarins ásamt Höllu Gunnarsdóttur, nýjum framkvæmdastjóra Alþýðusambandsins.

Heiðrún sagði að um 20 dómar um umboðssvik hefðu fallið í hruninu, þar sem menn hefðu verið dæmdir fyrir gáleysisleg útlán. „Fram til þess tíma höfðum við talið að vondar viðskiptalegar ákvarðanir hefðu ekki í eðli sínu talist refsiverðar.“

Þetta gæti haft afleiðingar er kemur að framkvæmd svokallaðra brúarlána, lána til fyrirtækja sem hafa orðið illa úti í kórónuveirufaraldrinum en hið opinbera hyggst gangast í ábyrgð fyrir hluta þeirra.

„Nú gerum við ráð fyrir að fjármálafyrirtæki spyrji sig með brúarleiðina, þar sem þau eiga að taka á sig hluta þessara lána, hvort þau eigi að veita lánsfé til fyrirtækja sem strangt til tekið samkvæmt skilgreiningu gjaldþrotaréttar eru ógjaldfær.“

Aðspurð sagði hún mögulegt að ríkið þyrfti að ábyrgjast lánin að fullu, eða þá að víðtækari sátt þyrfti við aðra kröfuhafa. „Það gengur ekki að bankarnir eða ríkið séu nú að veita ný lán en svo geti aðrir kröfuhafar stigið inn og óskað eftir gjaldþrotaskiptum eða reynt að endurheimta sínar kröfur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina