Enn á eftir að skýra hlutverk stjórnar

Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri Vogs.
Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri Vogs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir og forstjóri á Sjúkrahúsinu Vogi, segirst ánægð með að samkomulag hafi náðst við stjórn SÁÁ um að uppsagnir starfsmanna á Vogi yrðu dregnar til baka. Valgerður hafði sjálf lýst yfir mikilli óánægju með ákvörðun stjórnarinnar og talið hana ekki vera á valdsviði stjórnar félagsins.

Aðsðurð segir hún þó að enn standi eftir það verkefni að skýra hlutverk stjórnarformanns og stjórnar félagsins, annars vegar, og fagstjórnenda á Vogi hins vegar. „Ég finn ekki enn fyrir skilningi innan stjórnarinnar á þessari afstöðu,“ segir Valgerður. „Það er tímabært að taka samtal um þetta innan SÁÁ og það þarf að gerast á aðalfundi,“ segir Valgerður, en hann verður að öllum líkindum haldinn í júní.

Stjórnendur á Vogi standa frammi fyrir ærnu verkefni, en viðbúið er að tekjur sjúkrahússins, sem reiðir sig meðal annars á frjáls framlög, dragist saman um hundruð milljóna á árinu. Var það einmitt þess vegna sem stjórn SÁÁ ákvað að segja upp átta starfsmönnum, ákvörðun sem nú hefur verið afturkölluð.

Valgerður segist telja mögulegt að ná inn meiri tekjum, s.s. frá hinu opinbera, og að því skuli stefnt. Hún viðurkennir þó að einhver niðurskurður sé óhjákvæmilegur. Þegar hafa allir starfsmenn sjúkrahússins samþykkt að skerða starfshlutfall, og þar með laun, um 20% og nýta þeir hlutabótaúrræði stjórnvalda af þeim sökum. Þá þurfi Vogur að einbeita sér að þeim verkefnum sem hann hefur samið um við ríkið, en hugsanlega skera niður í umframþjónustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert