Allt að 40% atvinnuleysi á smærri stöðum

Reiknað er með allt að 40% atvinnuleysi á smærri stöðum sem eru hvað mest háðir ferðaþjónustu, t.d. Mýrdalshreppi, Skaftárhreppi og Skútustaðahreppi. Þrátt fyrir að atvinnuleysið sé mest á Suðurnesjum þá hefur það aukist hlutfallslega minnst þar undanfarið. Þetta er meðal þess sem kemur fram í Hagsjá Landsbankans í dag. 

Samkvæmt nýjum tölum Vinnumálastofnunar var skráð atvinnuleysi í lok mars 9,2% af áætluðum fjölda fólks á vinnumarkaði. Í lok mars voru um 38.600 manns á atvinnuleysisskrá, að meðtöldum þeim sem fá atvinnuleysisbætur vegna skerts starfshlutfalls.

„Hér er um nær einstakt stökk að ræða í atvinnuleysi milli mánaða, en atvinnuleysi í febrúar var 5%. Aukningin er þannig 4,2 prósentustig. Á milli desember 2008 og janúar 2009 jókst atvinnuleysi um 1,8 prósentustig, úr 4,8% í 6,6%. Almennt atvinnuleysi var 5,7% í mars og atvinnuleysi vegna skerts starfshlutfalls 3,5%, samtals 9,2%.

Um 33 þúsund manns höfðu í vikunni sótt um atvinnuleysisbætur vegna minnkaðs starfshlutfalls sem er mun meira en reiknað var með. Áhrifin af þeirri aðgerð koma þó ekki fram að fullu fyrr en í atvinnuleysistölum fyrir apríl. Nýjum umsóknum um atvinnuleysisbætur vegna skerts starfshlutfalls hefur þó farið fækkandi eftir því sem liðið hefur meira á aprílmánuð sem eru jákvæðar fréttir.

Þessi tvískipting atvinnuleysis í hefðbundið atvinnuleysi annars vegar og atvinnuleysi vegna skerts starfshlutfalls hins vegar gerir allan samanburð í tíma erfiðan. Erfitt er að segja til um hvort einhver hluti þeirra sem eru nú á atvinnuleysisbótum í skertu starfshlutfalli fer til sömu starfa aftur á næstu mánuðum eins og vonir standa til.

Að mati Vinnumálastofnunar er líklegt að atvinnuleysi verði um 17% á landinu öllu í apríl. Fram til þessa er mesta atvinnuleysið sem mælst hefur í einum mánuði 9,3% í febrúar og mars 2010.

Suðurnesin skera sig nokkuð frá heildinni, en atvinnuleysi þar var orðið um 9% áður en COVDI-faraldurinn braust út og hefur aukist mikið síðan. Það var orðið 14% í mars og verður væntanlega um eða yfir 20% í apríl. Atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu var 5% í febrúar og fór upp í 9,6% í mars. Þá er einnig ljóst að atvinnuleysi mun bitna illa á minni stöðum á landinu sem eru hvað mest háðir ferðaþjónustu, t.d. Mýrdalshreppi, Skaftárhreppi og Skútustaðahreppi. Á þessum stöðum er reiknað með allt að 40% atvinnuleysi.

Sé litið á hlutfallslega breytingu atvinnuleysis milli febrúar og mars kemur hins vegar í ljós að atvinnuleysið hefur aukist hlutfallslega minnst á Suðurnesjum og mest á Suðurlandi og Austurlandi. Í þessu sambandi ber að hafa í huga að atvinnuleysið á Suðurnesjum var þegar orðið meira í febrúar en það varð í mars á Suðurlandi og Austurlandi,“ segir í Hagvísum Landsbankans.

Væntanlega eykst atvinnuleysi út apríl

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáði á dögunum að atvinnuleysi hér á landi yrði að meðaltali 8% á þessu ári, og 7% á því næsta. Til samanburðar var atvinnuleysið hér 3,6% á árinu 2019.

„Það er auðvitað erfitt að spá fyrir um atvinnuleysi það sem eftir lifir ársins 2020. Fyrir nokkrum vikum var frekar reiknað með því að þetta áfall gæti orðið skammvinnt, en bjartsýnin hefur farið dvínandi. Það skiptir auðvitað miklu máli hve langt er í að hjól atvinnulífsins fari að snúast aftur með eðlilegum hætti og fólk á atvinnuleysisbótum vegna skerts starfshlutfall komist aftur til starfa.

Aðstæður á vinnumarkaði hafa gjörbreyst á örskömmum tíma líkt og nær allar aðstæður í hagkerfinu. Atvinnuleysi mun væntanlega aukast töluvert í apríl. Ætlunin var að nýjar reglur um atvinnuleysisbætur vegna skerts starfshlutfalls giltu út maí, en nú er verið að ræða mögulega framlengingu á þeim úrræðum og þá er einnig verið að meta hvernig þessi úrræði hafa komið út og hvort þörf sé á nýjum og annarskonar úrræðum,“ segir ennfremur í Hagsjá Landsbankans en hana má lesa í heild hér.

mbl.is