„Lögfræðilega rangt og hreint og beint óskiljanlegt“

Jón Þór Ólason, lektor í refsirétti við Háskóla Íslands.
Jón Þór Ólason, lektor í refsirétti við Háskóla Íslands.

Jón Þór Ólason, lektor við lagadeild Háskóla Íslands og starfandi lögmaður, segir ummæli Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, í Silfrinu í gær um dóma í hrunmálum og áhættufælni fjármálafyrirtækja vera röng og að dómarnir dragi ekki úr eðlilegri áhættusækni fjármálafyrirtækjanna.

Í Silfrinu í gær var meðal annars rætt við Heiðrúnu um brúarlánaleiðina svokölluðu þar sem áformað er að ríkið ábyrgist hluta lána sem fyrirtækjum í vanda er veitt af fjármálafyrirtækjum. Sagðist hún gera ráð fyrir að fjármálafyrirtæki spyrðu sig spurninga um þessa leið með hliðsjón af dómum Hæstaréttar í umboðssvikamálum eftir fjármálahrunið 2008. Þau ættu að taka á sig hluta þessara lána og veita lánsfé til fyrirtækja sem strangt til tekið væru ógjaldfær samkvæmt skilgreiningu gjaldþrotaréttar.

„Við erum með einhverja 20 dóma um umboðssvik þar sem Hæstiréttur hefur sagt að svona gáleysisleg útlán eru refsiverð.  Fram til þess tíma höfðum við talið að vond­ar viðskipta­leg­ar ákv­arðanir hefðu ekki í eðli sínu tal­ist refsi­verðar,“ sagði Heiðrún í þættinum í gær og bætti við að mögulega þyrfti ríkið að ábyrgjast lánin að fullu eða þá að víðtækari sátt þyrfti við aðra kröfuhafa.

„Gáleysisleg útlán leiða ekki til refsiábyrgðar fyrir umboðssvik“

Jón Þór segir í samtali við mbl.is þetta orðfæri hennar „lögfræðilega rangt og hreint og beint óskiljanlegt.“ Þannig bendir hann á að til þess að um umboðssvik sé að ræða þurfi bæði að vera sannaður auðgunarásetningur og misnotkun á aðstöðu. „Gáleysisleg útlán leiða ekki til refsiábyrgðar fyrir umboðssvik,“ ítrekar hann og segir alveg ljóst út frá dómaframkvæmd Hæstaréttar að ekki sé sakfellt fyrir gáleysisleg útlán, svo framarlega sem þau séu veitt innan heimilda viðkomandi lánastofnunar og ekki andstæð öðrum lögum og reglum.

„Það er þessi misnotkun á aðstöðu sem er lykillinn í umboðssvikaákvæðinu,“ segir Jón Þór og ítrekar að það sé rangt að Hæstiréttur hafi í dómum sínum verið að meta gáleysisleg útlán refsiverð. Segir hann þetta heldur ekki nýja nálgun hjá réttinum því fyrir fjármálahrunið hafi einnig alltaf þurft að sýna fram á ásetning. „Gáleysi kemur því ekkert við.“

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Segir Jón Þór að í dómum Hæstaréttar í umboðssvikamálum sé meðal annars horft til þess hver fjártjónshættan sé, innri og ytri regla, undirbúnings og skjalagerð lána, endurgreiðslulíkur og veðstöðu auk þess hvernig áður hafi verið farið að í tengslum við útlán til viðkomandi aðila eða í sambærilegum tilfellum.

Ekki sjálfkrafa umboðssvik þó peningar tapist

„Dómar Hæstaréttar þýða ekki að ef banki lánar út peninga og þeir tapast sé alltaf um að ræða umboðssvik. Það þarf að fara fram heildarmat á hverju máli,“ segir hann og bætir við: „Það er mikill munur á viðskiptalegri ákvörðun og að lögum og reglum - hvort sem það eru ytri eða innri reglur – sé ekki fylgt.“

Jón Þór segir að þegar komi að ógjaldfærni fyrirtækja við þessar aðstæður núna og tengingu við gjaldþrotarétt sé meðal annars hægt að horfa til stöðunnar eftir fjármálahrunið. Þá hafi stór hluti fyrirtækja á Íslandi verið ógjaldfær. Það hafi samt ekki þýtt að um umboðssvik væri að ræða þótt fjármálastofnanir lánuðu þeim fé. Segir hann að þar þurfi aftur að horfa til þessa heildarmats. T.d. hvort hægt sé að tryggja lánveitinguna, hvort ógjaldfærnin sé tímabundin og hvort blikur séu á lofti um að úr henni verði bætt. Segir hann að í dómum Hæstaréttar í umboðssvikamálum eftir fjármálahrunið ættu nú að birtast skýrar leiðbeiningar til hvaða atriða dómstólar horfi við þetta heildstæða mat sitt og þá eigi ekki að vera nein sérstök hætta til staðar fari menn að reglum. Segir Jón Þór sér finnast margir mála skrattann of mikið á vegginn þegar komi að þessari meintu áhættufælni og tengingu við hrundóma.

SPRON-málið dæmi þar sem ekki sé sakfellt fyrir viðskiptalega ákvörðun

Þá nefnir hann dóminn í SPRON-málinu sem dæmi þar sem Hæstiréttur hafi sýknað þar sem ekki þótti rétt að heimfæra umboðssvikaákvæðið á þá háttsemi. Þar hafi verið viðskiptaleg ákvörðun sem sannarlega fylgdi mikil áhætta, en að ekki hafi verið um misnotkun á aðstöðu að ræða eða auðgunarásetningur. „Sá dómur sýnir einfaldlega heildarmatið sem fara þarf fram og hann var í samræmi við dómaframkvæmdina,“ segir hann. 

Er þetta í samræmi við niðurstöðu Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst, doktorsnema í refsirétti við Háskóla Íslands, sem fór yfir dómaframkvæmd í umboðssvikamálum í tveimur aðsendum greinum í Morgunblaðinu fyrir ári síðan. Bar hann meðal annars saman niðurstöður Exeter-málsins og SPRON-málsins. Var fyrri grein hans reyndar svarað af Jóni Steinari Gunnlaugssyni, fyrrverandi Hæstaréttardómara.

Jón Þór tekur fram að lokum að hvert og eitt sakamál hafi sín séreinkenni og því geti verið erfiðleikum bundið að bera sönnunarbyrgði frá einu máli til annars. Dómar Hæstaréttar í hrunmálunum beri hins vegar ekki með sér að slakað hafi verið á kröfum til sönnunar en áður hafi tíðkast.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert